Knattspyrna: Sandra María í A-landsliðinu, þrjár í U23

Þór/KA á einn fulltrúa í A-landsliðinu sem tilkynnt var í dag og þrjá í U23 landsliði sem kemur saman til æfinga í lok mánaðarins.

Þorsteinn H. Halldórsson hefur valið A-landsliðshópinn sem mætir Austurríki tvívegis í undankeppni EM 2025. Fyrri leikurinn fer fram ytra föstudaginn 31. maí, en sá síðari á Laugardalsvellinum þriðjudaginn 4. júní. Sandra María Jessen er að sjálfsögðu áfram okkar fulltrúi á þessum vettvangi, ekki við öðru að búast eftir frammistöðu hennar með Þór/KA í vetur og vor.

Þórður Þórðarson, þjálfari U23 landsliðsins, hefur valið 26 leikmenn til æfinga sem fram fara 28.-31. maí. Liðið mun leika æfingaleik við Þrótt. Í þessum hópi eigum við þrjá fulltrúa, eiginlega fjóra. Frá Þór/KA verða þarna Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, en í hópnum er einnig Akureyringurinn María Catharina Ólafsdóttir Gros.