Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þór mátti þola sex stiga tap í framlengdum leik gegn Stjörnunni í þriðja leik liðanna sem fram fór í kvöld. Lokatölur 74:68.
Þar með hefur Stjarnan tekið forystuna í einvíginu 2:1 en liðin mætast í fjórða leiknum sem fram fer í íþróttahöllinni sunnudaginn 16. apríl klukkan 16.
Leikurinn í heild var jafn og æsispennandi eins og búast mátti við enda tvö frábær lið að takast á. Afar jafnt var á með liðunum í fyrsta leikhluta þar sem liðin skiptust á forystunni en þegar um þrjár mínútur lifðu af leikhlutanum hafði Þór átta stiga forskot 8:16 en heimakonur svöruðu með 10:2 kafla og staðan 18:18 þegar annar leikhlutinn hófst.
Líkt og í fyrsta leikhlutanum var afar jafnt á með liðunum og munurinn sjaldnast meir en 1-2 stig. En um miðja leikhlutann hafði Þór fimm stiga forskot 27:32 en heimakonur enduðu leikhlutann líkt og í þeim fyrsta þ.e. með 8:2 kafla og leiddu með einu stigi í háfleik 35:34.
Í fyrri hálfleik var Maddie stigahæst hjá Þór með 16 stig og Tuba og Heiða Hlín með sex stig hvor. Þarna voru villuvandræði í uppsiglingu þar sem Rut Herner var kominn með 4 villur. Í byrjun framlengingunni fékk svo Eva sína fimmtu villu.
Hjá Stjörnunni var Diljá Ögn með 16 stig og þær Kolbrún María og Ísold með sjö stig hvor.
Stjörnukonur voru fyrri til að skora í síðari hálfeik en stelpurnar okkar jöfnuðu 38:38 og svo aftur 46:46 um miðjan leikhlutann. Í hönd kom 0:6 kafli hjá Þór sem leiddi með sjö stigum þegar lokakaflinn hófst 46:52.
Snemma í fjórða leikhluta hafði Þór náð tíu stiga forskoti 46:56 en þá fór allt í skrúfuna og þegar þrjár mínútu voru eftir voru heimakonur með eins stig forskot 60:59. Í hönd fóru æsispennandi loka mínútur og þegar mínúta lifði leiks var staðan jöfn 65:65. Loka mínútu venjulegs leiktíma notuðu liðin heldur illa og gerðu fjölmörg mistök og fór svo að loknum venjulegum leiktíma var staðan jöfn 65:65 svo grípa þurfti til framlengingar.
Þegar þarna var komið við sögu var Þórsliðið komið í mikil villuvandræði en þær Tuba, Heiða Hlín, Rut Herner og Maddie allar með fjórar villur og Eva fékk sína fimmtu villu í framlengingunni.
Skemmst er frá því að segja að ekkert gekk upp hjá Þór, margar slæmar sendingar og hittni afleit og fór svo að Þór skoraði aðeins þrjú stig í framlengingunni gegn níu heimakvenna. Stjarnan fagnaði því sex stiga sigri 74:68 og leiðir nú einvígið 2:1. Í raun hefði sigurinn lent hvoru megin sem var í venjulegum leiktíma en heimakonur reyndust sterkari í framlengingunni og sigurinn þeirra sanngjarn.
Í liði Stjörnunnar dró Diljá Ögn vagninn sem oft áður og skoraði 34 stig Hjá Þór var Maddie með 30 stig og 19 fráköst en Tuba var með 9 stig og 27 fráköst.
Tölfræði leikmanna stig/fráköst/stoðsendingar
Leikmenn Þórs: Maddie 30/19/1, Eva Wium 10/6/1, Tuba 9/27/1, Heiða Hlín 9/4/1, Hrefna 6/2/1, Rut Herner 2/3/0, Karen Lind 2 fráköst og Emma Karólína 1 frákast
Leikmenn Störnunnar: Dilja Ögn 32/5/1, Ísold 16/12/3, Kolbrún María 13/7/0, Riley 12/14/2, Bergdís 1/4/0 og Hrafndís 1 frákast.
Gangur leiks eftir leikhlutum: 18:18 / 17:16 (35:34) 11:18 / 19:13 / 9:3 = 74:68
Meðal þess sem hefur stór áhrif á leiki eru tapaðir boltar og hjá Þór voru þeir 23 í kvöld en 13 hjá heimaskonum. Þá munaði nokkuð á nýtingu víta sem var 19/30 =63% hjá Stjörnunni en hjá Þór 10/18 = 55%.
Alla tölfræði má sjá HÉR
Svo næst á dagskránni er að fylla höllina næstkomandi laugardag 15. apríl en þá mætast liðin á ný í fjórðu viðureign liðanna. Þar þarf Þór á sigri að halda til að knýja fram oddaleik.
Áfram Þór alltaf, alls staðar