Íslandsmót yngri flokka í fullum gangi
Íslandsmót yngri flokka er í fullum gangi þessa dagana og er nú komið að fyrstu stóru helgi sumarsins þar sem átta leikir eru á dagskrá hjá okkar fólki.
3. og 4.flokkur kvenna heldur suður yfir heiðar og leikur 3.flokkur gegn Þrótti og Breiðablik en 4.flokkur gegn Víkingi og HK. Stelpurnar í 3.flokki Þórs/KA eru með fullt hús stiga eftir fyrstu fimm leiki sína í Lotu 1 í A-deild en þetta eru fyrstu leikir 4.flokks í sumar.
2. og 3.flokkur karla átti að leika heimaleiki um helgina en engin aðstaða til fótboltaiðkunar er í boði á félagssvæði Þórs þessa dagana og þurfa strákarnir því að leika á KA-velli en 3.flokkur mætir Stjörnunni á sunnudag og 2.flokkur mætir Fram á laugardag.
Líkt og stelpurnar eru strákarnir í 3.flokki taplausir til þessa í Íslandsmótinu í fyrstu sex leikjum sínum í A-deild.
Mikil heppni er að aðeins voru tveir heimaleikir á döfinni hjá okkar liðum þessa helgina þar sem lítið samráð var haft við Þór vegna yngri flokkanna þegar tekin var ákvörðun um að Boginn skyldi ekki nýttur til fótboltaiðkunar í fimm daga á þessum háannatíma fótboltans.
Frá og með 1.maí og fram á haust er verulega mikið um að vera hjá yngri flokkunum okkar. Frá 1.maí-15.júní eru fyrirhugaðir 70 heimaleikir í Íslandsmóti en á þeim tíma er Boginn eini keppnisvöllur yngri flokka auk þess sem allar æfingar yngri flokka fara fram í Boganum fram í miðjan júní. Vonir eru bundnar við að ekki komi til fleiri óvæntra viðburða í Boganum í sumar líkt og gerðist nú um helgina.
Öll á völlinn og áfram Þór!