Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þórsarar máttu þola eins marks tap gegn ungmennaliði Hauka þegar liðin mættust í Grill 66 deildinni í kvöld. Lokatölur 33-34. Arnór Þorri Þorsteinsson skoraði 16 mörk.
Gestirnir tóku frumkvæðið strax í upphafi með áköfum og öflugum varnarleik og héldu forystunni út hálfleikinn, náðu mest sex marka forystu í lok fyrri hálfleiks. Þórsurum gekk brösuglega að skora og var staðan orðin 7-12 eftir fyrsta stundarfjórðunginn. Ágúst Ingi Óskarsson var öflugastur gestanna í markaskorun með sjö mörk í fyrri hálfleiknum, en Arnór Þorri Þorsteinsson með flest mörk fyrir Þórsara, eða sex. Steinar Logi Jónatansson varði átta skot í marki Hauka í fyrri hálfleiknum, en Arnar Þór Fylkisson þrjú í Þórsmarkinu.
Þórsarar náðu upp góðri stemningu og áhlaupi í upphafi seinni hálfleiks. Kristján Páll Steinsson var þá kominn í markið og lokaði því á tímabili, varði reyndar vel nánast allan seinni hálfleikinn. Þórsarar minnkuðu muninn niður í tvö mörk á fyrstu átta eða níu mínútum seinni hálfleiks og áttu kost á að minnka í eitt mark, en Haukar náðu aðeins að hægja á áhlaupinu eftir að þeir tóku leikhlé.
Áfram var munurinn tvö til fjögur mörk fram á lokamínúturnar og gekk Þórsurum brösuglega að brúa bilið að fullu. Á lokamínútunni var munurinn orðinn eitt mark, Þórsarar unnu boltann og Aron Hólm komst í færi, brotið á honum og dæmt víti – hefði jafnvel mátt senda einn Haukamanninn út af í tvær mínútur í leiðinni, en var ekki gert. Eftir frábæra frammistöðu og 16 mörk mistókst Arnóri Þorra Þorsteinssyni að skora úr vítinu. Haukar tóku leikhlé þegar hálf mínúta var eftir, en áttu síðan skot yfir. Þórsarar fóru í sókn, en náðu ekki að ógna markinu, fengu aukakast þegar leiktíminn var liðinn. Það nýttist ekki og ósigur því niðurstaðan.
Arnór Þorri Þorsteinsson skoraði nær helming marka Þórs, 16 af 33 mörkum. Kristján Páll Steinsson átti stóran þátt í því í seinni hálfleiknum að Þórsarar komust aftur inn í leikinn og áttu kost á að jafna, en Kristján Páll varði 12 skot, öll í seinni hálfleiknum. Aðrir markaskorarar Þórs voru Aron Hólm Kristjánsson 4, Kostadin Petrov 4, Jonn Rói Tórfinsson 3, Josip Vekic 2, Jón Ólafur Þorsteinsson 1. Kristján Páll Steinsson varði 12 skot, Arnar Þór Fylkisson 3.
Þórsurum gekk illa að stöðva Ásgeir Inga Óskarsson, einkum í fyrri hálfleiknum, og Össur Haraldsson í þeim síðari. Ásgeir Ingi skoraði níu mörk, þar af sjö þeirra í fyrri hálfleik. Þegar hans var betur gætt í seinni hálfleiknum tók Össur við keflinu, en hann skoraði samtals 11 mörk í leiknum. Steinar Logi Jónatansson varði 18 skot í marki Haukanna.
Þórsarar duttu niður í 8. sætið í deildinni eftir úrslit kvöldsins, en eru þar jafnir Víkingi, Fjölni og Selfossi-u með fimm stig. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Víkingi í Reykjavík föstudaginn 18. nóvember.
Gangur leiksins og tölur á hbstatz.is.
Grill 66 deildin - staða, úrslit leikja og leikjadagskrá á vef HSÍ.
Kristján Páll Steinsson í var öflugur í marki Þórs, varði 12 skot í seinni hálfleiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net.
Kostadin Petrov er oft illviðráðanlegur á línunni, býr yfir miklum styrk og skottækni. Hér skorar hann eitt fjögurra marka sinna í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net.
Aron Hólm Kristjánsson í hraðaupphlaupi á lokamínútunni í kvöld eftir að Kostadin Petrov hafði unnið boltann af Haukum. Aron skoraði reyndar, dómarar leiksins mátu það svo að hann hafi tekið of mörg skref, og fékk því dæmt víti í staðinn. Því miður nýttist það víti ekki. Mynd: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net.