Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Ástæða er til að hvetja Þórsara á höfuðborgarsvæðinu til að mæta í Smárann á laugardaginn þegar stelpurnar okkar í Subway-deildarliði Þórs í körfubolta mæta liði Grindavíkur. Leikur liðanna hefst kl. 14.
Mikil stemning hefur myndast fyrir leiknum og alveg eins líklegt að þar falli aðsóknarmet á körfuboltaleik kvennaliða því stuðningsfólk Grindavíkur mun án efa fjölmenna til að styðja stelpurnar sínar, njóta þess að horfa á körfubolta og gleyma amstri dagsins um stund - og það er auðvitað ekkert venjulegt amstur þessa dagana eins og fólki er kunnugt.
Þetta verður því alvöru prófraun hjá okkar stelpum. Annars vegar mæta þær einu af bestu liðum deildarinnar og hins vegar má búast við miklum stuðningi Grindvíkinga og annarra úr stúkunni. Leikurinn verður tilfinningaþrunginn á alla kanta, innan sem utan vallar, óhætt er að fullyrða það. Þessi leikur verður þannig meira en bara íþróttakappleikur í ljósi ástandsins, en fyrst og síðast er þetta samt bara leikur tveggja góðra liða í Subway-deildinni í körfubolta. Óháð öllu öðru hafa stelpurnar okkar líka skemmt okkur og fleirum með skemmtilegum körfubolta og mikilli stemningu innan liðsins. Engin ástæða til að breyta því í þessum leik.
Þórsarar á höfuðborgarsvæðinu þurfa því ekkert að vera feimnir við að mæta í Smárann og styðja stelpurnar okkar - þannig sýnum við íþróttinni og keppinautunum virðingu. Með því að mæta á leikinn og greiða aðgangseyri er svo stuðningurinn auðvitað einnig við körfuknattleiksdeild UMFG.
Leikurinn átti upphaflega að vera sunnudaginn 19. nóvember, en hafði verið færður yfir á laugardaginn og settur á kl. 16:30. Í tengslum við náttúruhamfarirnar í Grindavík var síðan ákveðið að setja leiki kvenna- og karlaliðs Grindavíkur á sama dag, en á dagskrá karlaliðsins var upphaflega útileikur við Hamar í Hveragerði sem hefði átt að fara fram á föstudag eða laugardag. Leikir Grindavíkurliðanna hafa nú verið færðir í Smárann í Kópavogi. Karlaliðin fengu tímann kl. 17, en kvennaliðunum er gert að spila kl. 14.