Körfubolti: Vantaði örlítið upp á gegn ÍR

Þórsarar sóttu ekki gull í greipar Breiðhyltinga þegar þeir mættu ÍR-ingurm í fimmtu umferð 1. Deildar karla í körfubolta í kvöld, en börðust þó allt til enda. Ellefu stiga sigur ÍR-inga varð niðurstaðan.

Þórsarar leiddu framan af fyrsta leikhluta, en ÍR sigu fram úr og héldu 5-10 stiga forskoti fram í miðjan annan leikhluta. Þá bættu þeir í og enduðu með 13 stiga forskot eftir fyrri hálfleikinn. Þórsarar voru þó ekkert á því að hleypa heimamönnum of langt í burtu og byrjuðu að saxa á forskotið þegar leið á þriðja leikhlutann og munurinn átta stig áður en kom að lokafjórðungnum.

Snemma í fjórða leikhluta var munurinn orðinn fimm stig, en ÍR-ingar vildu ekki hleypa okkar mönnum nær og náðu að halda 5-10 stiga mun út leikinn þrátt fyrir ákafar tilraunir og pressuvörn Þórsara á lokamínútunum. Niðurstaðan varð 11 stiga sigur ÍR-inga og vantaði raunar ekki mikið upp á að Þórsarar næðu að narta í hæla heimamanna.

ÍR - Þór (26-20) (20-13) 46-33 (18-25) (30-25) 94-83

Harrison Butler og Jason Gigliotti voru öflugastir Þórsara í leiknum. Butler með 28 stig, Jason 27 og 18 fráköst. Þórsarar höfðu betur í baráttunni um fráköstin og munaði þar mest um framlag Jasons Gigliotti. Tapaðir boltar voru 19 á móti 11 hjá ÍR-ingum. Skotnýtingin svipuð, nema hvað ÍR-ingar hittu mun betur úr þriggja stiga skotunum.

Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins á vef KKÍ.

Stig/fráköst/stoðsendingar

ÍR
Lamar Morgan 26/8/3, Hákon Hjálmarsson 22/1/9, Oscar Jörgensen 18/1/3, Colin Pryor 12/5, Friðrik Curtis 9/9/1, Lúkas Stefánsson 5/3, Anders Gabriel Patrik Adersteg 2/4/1.

Þór
Harrison Butler 28/6, Jason Gigliotti 27/18/1, Reynir Róbertsson 13/4/7, Baldur Örn Jóhannesson 7/10/2, Andri Már Jóhannesson 5/0/1, Michael Walcott 3/4/3, Sigurjón Trausti Guðgeirsson Hjarðar eitt frákast.

Leikurinn var í beinni á YouTube-rásinni ÍR karfa og þar má finna upptöku af leiknum.

Næsti leikur Þórs er heimaleikur gegn Hrunamönnum.

  • Deild: 1. deild karla
  • Leikur: Þór - Hrunamenn
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Föstudagur 10. nóvember
  • Tími: 19:15