Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þór/KA sigraði Breiðablik á Kópavogsvelli í kvöld, 2-1, og tryggði sér sæti í úrslitaleik keppninnar þar sem andstæðingurinn verður annaðhvort Þróttur eða Stjarnan.
1-0 - Andrea Rut Bjarnadóttir (3')
1-1 - Tahnai Annis (28')
1-2 - Tahnai Annis (79')
Blikastelpur byrjuðu leikinn af krafti og komust yfir með marki frá Andreu Rut Bjarnadóttur strax á 3. mínútu. Þrátt fyrir að vera meira með boltann tókst þeim þó ekki að bæta við marki heldur var það Tahnai Annis sem jafnaði leikinn eftir tæplega hálftíma leik. Staðan 1-1 í leikhléi.
Blikar voru áfram meira með boltann í seinni hálfleiknum, en það verður ekki tekið af okkar stelpum að þær börðust saman sem lið og vildu sigur. Tækifærin voru líklega fleiri hjá Blikum, en barátta, samheldni og vilji skiluðu árangri. Þór/KA-stelpurnar börðust um alla bolta, gáfu ekkert eftir, hentu sér fyrir skotin og Harpa varði það sem komst framhjá varnarmönnunum.
Tahnai Annis bætti síðan við sínu öðru marki með skoti rétt utan vítateigs þegar um tíu mínútur lifðu leiks. Gaman er að geta þess að þó hún hafi mætt Blikum nokkrum sinnum á árunum 2012-2014 þegar hún var leikmaður Þórs/KA þá voru þetta hennar fyrstu mörk á Kópavogsvellinum. Sókn Blika þyngdist nokkuð í lokin, en þær fundu ekki leiðina í netið. Baráttuglaðar Þór/KA-stelpur sáu til þess.
Þór/KA-stelpur gera sig klára í leikinn.
Sigurinn hefði raunar getað dottið hvoru megin sem var, en barátta, vilji og samheldni skilaði Þór/KA sigrinum og Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari var ánægður með niðurstöðuna.
„Við erum í skýjunum með að vinna á einum erfiðasta útivelli landsins á móti einu besta liði landsins. Allt undir og við að keyra beint í leik. Við vorum mjög ósátt með að fara hér á fimmtudegi, rífa alla upp í rútu á fimmtudagsmorgni, fá frí úr skóla og vinnu, en stelpurnar notuðu það heldur betur til að mótivera sig,“ segir Jóhann. Hann vísar hér til þess að upphaflega voru undanúrslitaleikirnir settir á laugardaginn 25. mars, en að ósk Breiðabliks var leiknum flýtt þar sem þær eru að fara utan í æfingaferð.
Í því sambandi er reyndar hrollvekjandi að hugsa til þess að ef Þór/KA hefði ekki unnið Selfoss og Valur þar með komist í undanúrslitaleikinn og átt að mæta Blikum hefði líklega aldrei verið hægt að spila þann leik. Valsstelpurnar eru í æfingaferð erlendis, Blikastelpur eru að fara út og svo tekur við landsleikjahlé frá byrjun apríl. Fáir gluggar eftir til að færa til leiki.
En aftur að leiknum í kvöld og áliti þjálfarans. „Þrátt fyrir kulda þá náðu þær að koma sér í gírinn til að berjast fyrir þessum sigri þó hann hafi ekki verið sá fallegasti í heimi og þó við teljum okkur eiga mikið inni fyrir sumarið þá er sigur alltaf sigur og það þarf alltaf eitthvað að ganga vel til þess að maður vinni leik. Við þjálfararnir erum ofboðslega ánægðir með stelpurnar í dag og þær eiga þetta skilið. Það verður léttara að keyra heim heldur en hingað, það er alveg 100%,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA.
Hulda Ósk Jónsdóttir fór nokkrum sinnum illa með varnarmenn Blika á hægri kantinum, þó ekki hafi hún náð að skora í dag. En það er liðið sem skiptir máli og það veit Hulda Ósk: „Þetta var mikill liðssigur hjá okkur í dag og baráttan sigldi þessu heim,“ sagði Hulda Ósk í samtali við fréttaritara í leikslok.
Sandra María Jessen fyrirliði hefur vakið athygli og opnað augu margra með frábærri frammistöðu í leikjum liðsins á undirbúningstímabilinu. Hún hafði fyrir leikinn í kvöld skorað 11 mörk í Lengjubikarnum og 10 mörk í Kjarnafæðismótinu þar á undan. Leikurinn í kvöld var sá fyrsti á þessu undirbúningstímabili þar sem Sandra María skorar ekki, en hún var auðvitað ánægð með sigurinn. „Þetta var kannski ekki okkar sterkasti leikur í Lengjubikarnum eða á undirbúningstímabilinu, en klárlega liðssigur þar sem ég segi að við kláruðum þennan leik af því að við vorum þéttar og vorum að spila vel saman og héldum í boltann,“ segir Sandra María, en bætir við að vissulega hafi Blikar verið meira með boltann. „En við vorum að skyndisækja vel og loka á svæðin sem þær vildu sækja í. Þannig að við gerðum þeim erfitt fyrir, vorum alltaf ákveðnar í boltann og mikil barátta. Þetta var bara barátta í 93 mínútur. Það var það sem sigldi þessu heim í dag. Það er ótrúlega gaman að koma hingað og sigra Blikastelpurnar. Þær eru með gott lið og þetta segir mikið um gæðin í okkar liði líka,“ segir fyrirliðinn Sandra María Jessen.
Tahnai Annis hefur komið vel inn í hið unga og óreynda lið Þórs/KA í vetur, en eins og flest sem fylgjast með fótbolta var hún ein af lykilleikmönnum hjá Þór/KA á árunum 2012-2014 og vann Íslandsmeistaratitil með liðinu, ásamt því meðal annars að mæta Blikum í úrslitaleik bikarkeppninnar 2013. Tahnai gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk í dag, kannski ekki þau fallegustu á ferlinum, en þau telja. Hún var ánægð með liðið og sigurinn. „Mér fannst þetta góður liðssigur í dag, sérstaklega hérna á útivelli og í undanúrslitum mótsins. Mér fannst við allar skila okkar hlutverki og við stóðum saman og mér fannst þetta vera dálítið fram og til baka. Sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var, en við unnum fleiri augnablik og við erum spenntar að fara í úrslitaleikinn,“ sagði Tahnai Annis – lausleg þýðing, sjá enskan texta hér neðst í fréttinni.
Með sigrinum tryggði Þór/KA sér sæti í úrslitaleik Lengjubikarsins og mætir þar annaðhvort Þrótti eða Stjörnunni. Þessi lið eigast við í undanúrslitum mótsins á laugardaginn. Fréttaritara er ekki kunnugt um hvaða reglur gilda um heima- eða útileik í úrslitum Lengjubikarsins. Hvernig sem það verður er ljóst að liðið hefur nú þegar náð frábærum árangri, hefur unnið fimm leiki af sex í Lengjubikarnum nú þegar, þar á meðal bæði Val og Breiðablik.
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Ummæli Tahnai Annis á ensku:
„I thought it was a really good team win, especially away and in the semi-finals. I think everyone did their role, and we stuck together and I think it was kind of a back and forth game. It could have been won on either end, but we won more moments and we are excited to go to the finals.“