Franko Lalic og Víðir Jökull í Þór - Aron Birkir framlengir

Þrír markverðir hafa undirritað nýjan samning við knattspyrnudeild Þórs.

Aron Birkir Stefánsson undirritaði nýjan tveggja ára samning og er því á leið í sitt tíunda tímabil í meistaraflokki Þórs.

Aron Birkir, sem er 25 ára gamall, fór upp í gegnum yngri flokka starf Þórs og hefur leikið 193 leiki fyrir meistaraflokk Þórs auk þess að eiga 11 landsleiki að baki fyrir yngri landslið Íslands.

Franko Lalic er genginn til liðs við Þór en hann lék með Dalvík/Reyni í Lengjudeildinni síðustu leiktíð en hefur einnig leikið með Víkingi Ólafsvík og Þrótti Reykjavík hér á landi og leikið alls 111 leiki á Íslandi.

Franko er 33 ára gamall Króati sem hefur einnig leikið í Bosníu og Litháen auk heimalandsins. Auk þess að spila mun Franko hafa yfirumsjón með markmannsþjálfun félagsins. Samningurinn er til tveggja ára.

Víðir Jökull Valdimarsson er genginn til liðs við Þór frá Val. Víðir er ungur og efnilegur markvörður, fæddur árið 2007 og er því enn á miðári í 2.flokki. Hann hefur engu að síður leikið 35 leiki í meistaraflokki, með KH sem er venslalið Vals.

Víðir hefur leikið fjóra landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og gerir tveggja ára samning við Þór.

Við bjóðum Franko og Víði hjartanlega velkomna í Þorpið og fögnum því að hafa Aron Birki áfram og hlökkum til að fylgjast með þeim næsta sumar.