Handbolti: Tap eftir framlengingu í fyrsta leik

Jón Ólafur Þorsteinsson, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson, Kristján Páll Steinsson og Tómas Ingi Gunnars…
Jón Ólafur Þorsteinsson, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson, Kristján Páll Steinsson og Tómas Ingi Gunnarsson fagna sigri gegn Herði á Akureyri fyrr í mánuðinum. Því miður gátu þeir ekki fagnað í Grafarvoginum í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Eftir að hafa elt Fjölnismenn nær allan leikinn náðu Þórsarar að jafna í lokin og knýja fram framlengingu, en heimamenn í Fjölni voru sterkari í framlenginunni, unnu fjögurra marka sigur og tóku forystu í einvíginu.

Heimamenn í Fjölni höfðu frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn og voru komnir sex mörkum yfir eftir stundarfjórðungs leik. Þórsarar náðu að teygja sig í áttina til þeirra, minnkuðu muninn í tvö mörk en Fjölnismenn svöruðu og voru fimm mörkum yfir í leikhléi. Fjölnismenn höfðu áfram tveggja til fjögurra marka forystu þar til um 12 mínútur voru eftir af leiknum, en þá minnkuðu Þórsarar muninn í eitt mark. Fjölnir náði aftur þriggja marka forystu og staðan 22-19 þegar þrjár og hálf mínútua var til leiksloka. Þá skoruðu Þórsarar þrjú mörk í röð og jöfnuðu í 22-22. Fjölnir komst aftur yfir, en Þórsarar jöfnuðu og Kristján Páll Steinsson reddaði svo framlengingu með markvörslu á lokasekúndunum.

Fjölnismenn voru sterkari í framlengingunni og sigu fljótlega fram úr, unnu að lokum fjögurra marka sigur og tóku forystu í einvíginu.

Fjölnir - Þór 30-26 (framlenging) 23-23 (14-9)

Fjölnir
Mörk: Björgvin Páll Rúnarsson 9, Haraldur Björn Hjörleifsson 5, Óðinn Freyr Heiðmarsson 4, Viktor Berg Grétarsson 4, Alex Máni Oddnýjarson 3, Elvar Þór Ólafsson 2, Bernhard Snær Petersen 2, Dagur Logi Sigurðsson 1.
Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 15 (36,6%).
Rautt spjald: 1.
Refsimínútur: 4.

Þór
Mörk: Brynjar Hólm Grétarsson 8, Aron Hólm Kristjánsson 8, Sigurður Ringsted Sigurðsson 3, Halldór Kristinn Harðarson 3, Þormar Sigurðsson 1, Sveinn Aron Sveinsson 1, Friðrik Svavarsson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 18 (37,5%).
Refsimínútur: 6.

Einvígið - að baki og fram undan

  • 20. apríl: Fjölnir - Þór 1-0
  • Þriðjudagur 23. apríl í Höllinni á Akureyri
  • Föstudagur 26. apríl í Fjölnishöll
  • Mánudagur 29. apríl í Höllinni á Akureyri*
  • Fimmtudagur 2. maí í Fjölnishöll*
  • *Ef þörf er á - vinna þarf þrjá leiki til að vinna einvígið