Körfubolti: Þórsarar áfram eftir ævintýralegan viðsnúning

Leikmenn og stuðningsfólk fögnuðu vel í leikslok. Mynd: Páll Jóhannesson.
Leikmenn og stuðningsfólk fögnuðu vel í leikslok. Mynd: Páll Jóhannesson.

Þór vann Skallagrím í oddaleik í einvígi liðanna í úrslitakeppni 1. deildar karla og mætir ÍR í fjögurra liða úrslitum um laust sæti í Subway-deildinni. 

Leikur liðanna var sveiflukenndur í meira lagi. Eftir nokkuð jafnan fyrsta leikhluta þar sem Þórsarar leiddu með fimm stigum fór allt í handaskolum hjá Þórsliðinu í öðrum leikhluta á meðan gestirnir úr Borgarnesi gengu á lagið. Þórsarar skoruðu átta stig á móti 26 stigum Skallagríms sem leiddu með 13 stigum eftir fyrri hálfleikinn.

Það hélt svo áfram að síga á ógæfuhliðina hjá okkar mönnum langt inn í þriðja leikhlutann og þeir orðnir 20 stigum á eftir gestunum þegar tæp þrjár og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhlutanum, 41-61. Þá hófst ævintýralegur viðsnúningur. Þórsarar minnkuðu muninn í tíu stig áður en þriðji leikhuti var á enda og héldu svo áfram að höggva í sama knérunn í fjórða leikhlutanum. Borgnesingar voru þó ekki alveg af baki dottnir og virtust ætla að hanga í kringum tíu stiga forystu. Dyggilega studdir af öflugu stuðningsliði gáfu okkar menn allt í leikinn og komust loks yfir þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Þeir litu svo aldrei til baka eftir það og lönduðu fimm stiga sigri.


Stuðningurinn úr stúkunni var frábær í gærkvöld. Mynd: Páll Jóhannesson.


Borgnesingar fjölmenntu og settu skemmtilegan svip á leikinn. Stemningin var frábær allan tímann. Mynd: Páll Jóhannesson.

Vert er að hrósa stuðningsfólki beggja liða fyrir frábæra stemningu. Fjöldi fólks lagði leið sína úr Borgarnesi til að styðja sína menn og úr varð hin besta skemmtun innan sem utan vallar.

Þessi leikur var hreinlega upp á sigur eða sumarfrí, eins og það var orðað í frétt á Akureyri.net. Sigurinn var Þórsara, einvíginu lokið og Skallagrímur kominn í sumarfrí. Þórsarar mæta ÍR-ingum í fjögurra liða úrslitum og verður fyrsti leikurinn á útivelli á miðvikudagskvöls.  

Þór - Skallagrímur (24-19) (8-26) 32-45 (19-16) (34-19) 85-80

Leikurinn var sérlega sveiflukenndur eins og áður sagði og ef til vill var frammistaða Harrison Butler gott dæmi um það hvernig körfuboltaleikir geta þróast með áhlaupum þegar allt gengur upp hjá öðru liðinu en nánast ekkert hjá hinu. Þegar upp var staðið hafði hann skorað 42 stig. Hann skoraði 19 stig í fyrsta leikhluta en ekkert í öðrum. Erlendu leikmennirnir tveir Butler og Gigliotti skoruðu 63 af 85 stigum Þórs í leiknum.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Harrison Butler 42/10/4, Jason Gigliotti 21/11/1, Reynir Róbertsson 10/3/1, Smári Jónsson 8/3/5, Baldur Örn Jóhannesson 2/9/3, Andri Már Jóhannesson 2/2/0, Páll Nóel Hjálmarsson 0/1/0.

Skallagrímur: Darius Banks 29/10/4, Nicolas Elame 20/6/3, Ragnar Magni Sigurjónsson 10/2/3, Magnús Engill Valgeirsson 9/0/3, Björgvin Ríkharðsson 4/1/1, Davíð Guðmundsson 3/4/0, Almar Orri Kristinsson 3/0/1, Marinó Pálmason 2/4/5. 

Fyrsti leikur í fjögurra liða úrslitum gegn ÍR-ingum verður á útivelli miðvikudagskvöldið 24. apríl.