Alfreð Leó og Sandra María íþróttafólk Þórs 2024

Íþróttafólk Þórs 2024.
Íþróttafólk Þórs 2024.

Kjöri íþróttafólks Þórs var lýst í dag á verðlaunahátíðinni Við áramót sem haldin var í Hamri. 

Áður en að kom að því að kjöri íþróttafólks Þórs yrði lýst voru Íslandsmeistarar og landsliðsfólk úr röðum Þórs og Þórs/KA heiðruð, íþróttafólk deildanna var heiðrað eftir að Reimar Helgason, framkvæmdarstjóri Þórs, setti hátíðina sem Skapti Hallgrímsson stýrði svo af sinni alkunnu snilld.

Kjör íþróttafólks Þórs fer þannig fram að hverri deild er heimilt að tilnefna karl og konu úr sínum röðum sem aðalstjórn kýs síðan á milli.

Íþróttakarl Þórs 2024: Alfreð Leó Svansson

Íþróttakona Þórs 2024: Sandra María Jessen

Alfreð Leó Svansson, rafíþróttamaður, hefur unnið allt sem hægt er að vinna og náði að landa Íslandsmeistaratitlinum loksins með Þór í ár. Alli er einn af lykilleikmönnum Þórs í Ljósleiðaradeildinni, hann hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína á þessu tímabili, sérstaklega með AWP byssunni, Alli hefur sýnt framúrskarandi hæfileika og nákvæmni, sem hefur gert hann að ómissandi leikmanni í liðinu. Með stöðugri frammistöðu og mikilvægu framlagi i leikjum hefur Alli verið lykilmaður í mörgum sigrum Þórs. Það er ljóst að hann er einn af bestu leikmönnum deildarinnar og framtíðin er björt fyrir hinn síunga Alla og Þórsliðið. Einnig var lið Þórs valið lið ársins í vor. 

Sandra María Jessen, knattspyrnukona, tók þátt í öllum leikjum Þórs/KA í öllum KSÍ-mótunum og var í byrjunarliði í öllum þeirra nema einum. Í einum bikarleik kom hún inn sem varamaður eftir leikhlé og skoraði sigurmarkið skömmu síðar. Hún spilaði 23 leiki í Bestu deildinni, þrjá í Mjólkurbikarnum og sex í Lengjubikarnum. Sandra María var valin besti leikmaður Bestu deildarinnar af leikmönnum deildarinnar og var að auki markadrottning deildarinnar. Hún skoraði alls 33 mörk í leikjum Þórs/KA í KSÍ-mótunum, 22 mörk í 23 leikjum í Bestu deildinni, tvö mörk í þremur leikjum í Mjólkurbikarkeppninni og níu mörk í sex leikjum í Lengjubikarnum. Að auki átt hún níu stoðsendingar í þessum 32 leikjum. Þá kom hún við sögu í níu landsleikjum, í byrjunarliði í mörgum þeirra.  

Við óskum öllu okkar öfluga íþróttafólki til hamingju með árangurinn á nýliðnu ári og hlökkum til að fylgjast með nýjum afrekum á nýju ári.