Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Nú í byrjun mánaðarins var alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans um allan heim. Þessi dagur hefur verið haldinn frá árinu 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að helga 5. desember öllum sjálfboðaliðum. Sjálfboðaliðar eru oft ósýnilega aflið sem knýr íþróttastarfið áfram og því miður þá gleymist alltof oft að þakka þeim fyrir sitt óeigingjarna framlag.
Íþróttafélagið Þór væri sennilega ekki merkilegt ef ekki væri fyrir sjálfboðaliða og því ætlum við hjá heimasíðunni að ræða við nokkra af okkar frábæru sjálfboðaliðum á næstu vikum. Fyrsti sjálfboðaliðinn er Jórunn Eydís Jóhannesdóttir.
Auðvelt að velja Þór
Jórunni þarf vart að kynna fyrir Þórsurum en hún hefur verið í félaginu okkar í áratugi og sett á sig marga hatta. Jórunn hefur verið leikmaður, foreldri, stjórnarkona og auðvitað sjálfboðaliði en það er varla haldinn sá viðburður á vegum félagsins þar sem Jórunn er ekki potturinn og pannan.
„Ég var níu ára gömul þegar ég varð formlega Þórsari. Þá byrjaði ég að keppa á svigskíðum og þurfti að velja mér félag til að keppa fyrir. Það var auðvitað auðvelt val og ég valdi að sjálfsögðu Þór. Ég var í Gleráskóla og bjó í Þorpinu. Ég byrjaði svo spila fótbolta 14 ára og gerði það í mörg ár,“ segir Jórunn.
40 ár af gleði, sigrum og samvinnu
Hún segir erfitt að setja hendur á hvað standi uppúr á þeim tíma sem hún hefur verið Þórsari nefir fólkið í félaginu sérstaklega. „Það að hafa verið tengd félagi eins og Þór í 40 ár hefur gefið mér dásamlega vini, gleði, skemmtilegar samverustundir, frábæra sigra. Það sem er mikilvægast er samt að hafa tilheyrt og unnið með hópi fólks sem brennur fyrir því að ná árangri.“
„Við þurfum að tala vel um félagið okkar“
Það er ómetanlegt að hafa gott fólk eins og Jórunni í félaginu sem stendur vaktina í blíðu og stríðu og aðstoðar við lítil sem stór verkefni. Það er verkefni sem Jórunn mælir með að fleiri taki þátt í því þannig geti Þór og iðkendur okkar dafnað og bætt sig.
„Staðan er bara þannig í íþróttahreyfingunni að félögin þurfa á sjálfboðaliðum að halda. Ég er ekki að tala um að þú þurfir að vera í vinnu fyrir félagið á hverjum einasta degi en þú getur tekið þátt í einhverjum verkefnum á vegum félagsins t.d eina helgi á ári. Hjálpað til við stóra viðburði, gerst fararstjóri eða hjálpað til við fjáröflun. Það er svo gott að tilheyra og láta gott af sér leiða fyrir félagið.“
Ertu með einhver skilaboð til Þórsara að lokum?
„Það er oft talað um að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Því segi ég að með sjálfboðaliðum, hugarfari og stuðningi okkar mun Þór ná árangri og verða meðal fremstu íþróttafélaga á landinu. Við Þórsarar þurfum styðja við bakið á félaginu okkar, sýna því hollustu og tala vel um félagið. Áfram Þór! “