Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Hulda Ósk Jónsdóttir (1997) hefur skrifað undir nýjan samning og staðfest veru sína í herbúðum Þórs/KA út árið 2025. Karen María Sigurgeirsdóttir (2001) hefur undirritað nýjan samning við Þór/KA og því komin á fastan samning við félagið í stað lánssamnings.
Þór/KA hefur að undanförnu gengið frá fyrstu samningum við leikmenn og endurnýjað samninga. Þrjár ungar knattspyrnukonur skrifuðu á dögunum undir sína fyrstu leikmannasamninga og tvær aðrar endurnýjuðu fyrri samninga. Í lok júlí fékk félagið Margréti Árnadóttur (1999) aftur í sínar raðir eftir að hún hafði verið á mála hjá Parma Calcio 1913 frá því um áramótin og fram á sumar. Margrét er mikilvæg viðbót inn í hópinn fyrir síðari hluta Íslandsmótsins og fagnaðarefni að fá hana aftur til félagsins að minnsta kosti út árið 2024 eftir dvöl hennar á Ítalíu.
Efnilegar úr okkar eigin röðum
Það er mikill styrkur og fagnaðarefni fyrir félagið að tryggja sér áframhaldandi veru þeirra Huldu Óskar, Karenar Maríu og Margrétar í okkar röðum enda eru þær allar komnar í hóp hinna reyndari leikmanna í annars mjög ungum leikmannahópi. Hinar fimm sem hafa að undanförnu skrifað undir samninga koma allar úr yngri flokkum félaganna, en það eru Amalía Árnadóttir (2006), Bríet Jóhannsdóttir (2006), Emelía Ósk Krüger (2006), Kolfinna Eik Elínardóttir (2007) og Sonja Björg Sigurðardóttir (2006).
Hulda Ósk á áttunda tímabilinu
Hulda Ósk er á meðal reyndustu leikmanna Þórs/KA og sá leikmaður liðsins sem spilað hefur flesta meistaraflokksleiki hér á landi, alls 243 leiki í mótum á vegum KSÍ, ásamt fimm Evrópuleikjum. Hún á að baki 145 leiki í efstu deild. Hulda Ósk hefur verið óslitið hjá Þór/KA frá ársbyrjun 2016 nema þegar hún spilaði með skólaliði Notre Dame háskólans í Bandaríkjunum veturinn 2022, en var þó jafnframt á samningi hjá Þór/KA og var mætt í slaginn skömmu eftir að Íslandsmótið hófst. Hún er því á sínu áttunda tímabili hjá Þór/KA og mikið fagnaðarefni að hún velji að ljá félaginu áfram krafta sína.
Hulda Ósk hefur verið einn af lykilleikmönnum liðsins í sumar, eins og undanfarin ár, bæði skorað mörk, lagt upp mörk og skapað usla í vörnum andstæðinganna.
Karen María semur að nýju við Þór/KA
Karen María Sigurgeirsdóttir (2001) hefur skrifað undir samning við Þór/KA sem gildir út árið 2024. Hún kom aftur í okkar raðir í vor á lánssamningi frá Breiðabliki, en nú hefur hún skrifað undir nýjan samning við Þór/KA út árið 2024, í stað lánssamningsins við Breiðablik.
Karen María hóf meistaraflokksferilinn með Þór/KA og spilaði sína fyrstu leiki í efstu deild meistarasumarið 2017. Að loknu tímabilinu 2021 skipti hún yfir í Breiðablik og spilaði með Kópavogsliðinu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og svo áfram tímabilið 2022, þar til hún var lánuð aftur til Þórs/KA í vor. Hún á að baki 145 meistaraflokksleiki í mótum á vegum KSÍ, auk 12 Evrópuleikja með Þór/KA og Breiðabliki. Af þessum 145 leikjum eru 90 leikir í efstu deild.
Karen María hefur komið vel inn í leik liðsins í sumar og styrkt hópinn. Hún skoraði til dæmis eina mark liðsins í gríðarlega mikilvægum útisigri gegn FH á dögunum.
Styrkur innan frá
Fjölmiðlafólk spyr þjálfara og forsvarsmenn félaga oft og tíðum, sérstaklega þegar félagaskiptaglugginn er opinn, hvort ætlunin sé að styrkja hópinn og fá margs konar svör við slíkum spurningum. Segja má að svarið hjá Þór/KA núna í sumar sé einfaldlega: „Já, innan frá.“
Sjá einnig á thorka.is.