Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þór/KA bauð að venju upp á markaveislu þegar liðið mætti Þrótturum í Boganum í kvöld. Lokatölur urðu 6-2 og Þór/KA er á toppi riðilsins.
Þór/KA var komið með þriggja marka forystu eftir hálftíma leik, en þá hafði Bríet Jóhannsdóttir skorað tvívegis og Sandra María Jessen bætt við þriðja markinu, sínu fyrsta marki af þremur í kvöld. Þróttarar minnkuðu muninn í upphafi seinni hálfleiks, en mark frá Margréti Árnadóttur og tvö frá Söndru Maríu innsigluðu sigurinn þó Þróttarar hafi náð að bæta við öðru marki í lokin. Tveir nýir, erlendir leikmenn komu í fyrsta skipti við sögu með Þór/KA í kvöld, þær Lara Ivanuša og Lidija Kuliš, en þær komu til landsins á miðvikudag og fengu leikheimild frá og með deginum í dag. Þær spiluðu báðar seinni hálfleikinn í dag.
Þór/KA - Þróttur 6-2 (3-0)
Þór/KA er í góðri stöðu á toppi riðilsins eftir þrjár umferðir, en liðið er þó ekki öruggt um sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins. Tvö efstu liðin í hvorum riðli fara í undanúrslit. Tvær umferðir eru eftir og verða þær spilaðar um næstu og þarnæstu helgi. Mörkin sem Þór/KA fékk á sig í kvöld voru þau fyrstu sem skoruð eru hjá liðinu í mótinu.