Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Agnes Birta Stefánsdóttir er handhafi Kollubikarsins 2023.
Þessi viðurkenning var afhent í áttunda sinn á lokahófi Þórs/KA á laugardagskvöld, en Kollubikarinn er veittur í minningu Kolbrúnar Jónsdóttur, fyrrum leikmanns og stjórnarkonu. Stjórn Þórs/KA ákveður hver hlýtur Kollubikarinn. Ágústa Kristinsdóttir, yfirþjálfari yngri flokka Þórs/KA og dóttir Kolbrúnar, afhenti bikarinn.
Við val á þeim leikmanni sem hlýtur Kollubikarinn eru hafðir til hliðsjónar eiginleikar sem prýddu Kollu sjálfa, áræðni, harka og dugnaður, svo einhverjir séu nefndir. Kolbrún starfaði lengi í kvennaráði (stjórn) Þórs/KA, en hún lést þann 6. júní 2016.
Við afhendingu Kollubikarsins hefur skapast sú hefð að lesin er upp umsögn liðsfélaga um þann leikmann sem fær bikarinn. Liðsfélagi lýsir Agnesi Birtu með eftirfarandi orðum:
Agnes er góðhjörtuð, glaðleg, peppari, stemningarkona og ljúf (ekki í tæklingum samt). Agnes er traustur liðsfélagi og það er alltaf hægt að stóla á hana, hvort sem það er að hjálpa þér utan vallar eða að bjarga þér frá mistökum með fullkomlega tímasettri tæklingu. Hún er einstaklingur sem þú vilt hafa í þínu liði. Hún ýtir þér áfram þegar við á, gefur þér knús þegar þig vantar og síðast en ekki síst alltaf tilbúin að fíflast með þér, enda yfirleitt miðpunktur skemmtunar.
Handhafar Kollubikarsins frá upphafi:
2016: Karen Nóadóttir
2017: Sandra María Jessen
2018: Arna Sif Ásgrímsdóttir
2019: Lára Einarsdóttir
2020: Heiða Ragney Viðarsdóttir
2021: Harpa Jóhannsdóttir
2022: Hulda Björg Hannesdóttir
2023: Agnes Birta Stefánsdóttir