Pistill frá formanni - Nói fer yfir sviðið, m.a. árangur helgarinnar og árgjöld!

Ágætu Þórsarar

Það er ekki hægt annað en að byrja þennan pistil minn á hamingjuóskum en ég hvet alla til að lesa til enda, pistillinn er ekki langur.

Til hamingju með titilinn, Meistarameistarana í körfuboltanum. Enn og aftur eru stelpurnar okkar að gera frábæra hluti ásamt Danna þjálfara og stjórn körfunnar. Það er greinilega spennandi vetur framundan, snillingar.

Einnig er ástæða til að óska ÞórKA 2 fl til hamingju með Íslands og bikarmeistaratitlana sína, frábært starf unnið þar hjá þjálfurum, stjórn og leikmönnum. Bjartir tímar framundan í kvennaboltanum, snillingar á ferð þar líka. 

Ekki má gleyma strákunum í 3 fl sem urðu Íslandsmeistarar um helgina. 

Til hamingju með titilinn og frábæran árangur í sumar.

En þá er komið að öðru mikilvægu efni þessa pistils, nefnilega árgjaldið bráðnauðsynlega. Eina ferðina enn eru greiðsluseðlar vegna árgjaldsins komnir í heimabanka félagsmanna. Nú sem aldrei fyrr treystum við á að félagsmenn okkar stökkvi til og greiði félagsgjaldið og það sem fyrst.

 Það er margt í gangi hjá félaginu. Uppbygging er að hefjast á gervigrasvellinum á svæðinu sem við köllum Ásinn. Þar hefur félagið ákveðið að byggja upp stúku og verður það verkefni alfarið á kostnað félagsins. 
Einnig er í gangi skráning á sögu félagsins. Síðan er stjórn félagsins að skoða að setja upp svokallaðan " Hreystivöll " við Hamar fyrir almenning.
 
Öll þessi verkefni kosta félagið töluverðar upphæðir og hvet ég því félagsmenn til að greiða félagsgjöldin og aðstoða félagið í öllum þessum verkefnum. Einnig hvet ég þá félagsmenn sem ekki fá greiðsluseðla varðandi árgjaldið að setja sig í samband við Reimar framkv.stj.  (reimar@thorsport.is ) félagsins þannig að hann geti bætt úr því. Árgjaldið er einn stærsti tekjupóstur aðalstjórnar Þórs. 
 
Bkv Nói Björnsson formaður Þórs