Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þórsarar unnu nokkuð öruggan sigur á liði Ægis frá Þorlákshöfn, 3-1, í fimmtu umferð Lengjudeildarinnar á Þórsvellinum í kvöld. Liðið situr í 4.-5. sæti deildarinnar þegar fimm umferðum er lokið.
Fimm breytingar voru gerðar á byrjunarliði Þórs frá síðasta leik. Birgir Ómar Hlynsson og Vilhelm Ottó Biering Ottósson komu inn í vörnina í staðinn fyrir Bjarka Þór Viðarsson og Elmar Þór Jónsson. Þá kom Nikola Kristinn Stojanovic inn á miðjuna fyrir Kristján Atla Marteinsson og þeir Alexander Már Þorláksson og Fannar Daði Malmquist Gíslason í frammlínuna í staðinn fyrir Mark Sörensen og Valdimar Daða Sævarsson.
Þórsarar áttu hættulegri færi í fyrri hálfleiknum, en mörkin létu þó bíða eftir sér og dró ekki til tíðinda fyrr en alveg undir lok hálfleiksins.
1-0 - Fannar Daði Malmquist Gíslason (42') - stoðsending: Aron Ingi Magnússon
2-0 - Alexander Már Þorláksson (46') - stoðsending: Vilhelm Ottó Biering Ottósson
2-1 - Ivo Alexandre Pereira (86') - stoðsending: Cristofer Moises Rolin
3-1 - Kristófer Kristjánsson (89') - stoðsending: Ingimar Arnar Kristjánsson
42. mínúta: 1-0
Þórsarar vinna boltann upp við eigin vítateig Ion Perello kemur honum fram á miðjuna á Bjarna Guðjón Brynjólfsson sem leikur áfram og sendir svo fram á hægri kantinn. Þar er Aron Ingi Magnússon sem leikur áfram, sendir hárfína sendingu fyrir sem hvorki marvörður né varnarmaður Ægis ná til, en Fannar Daði Malmquist Gíslason var klár á fjærstönginni, teygði sig í boltan og skoraði.
Þetta var fyrsti leikur Fannars Daða í byrjunarliðinu eftir að hann kom til baka úr alvarlegum meiðslum sem hann varð fyrir í byrjun maí í fyrra og fyrsta markið hans frá því í bikarleik 22. apríl 2022.
Boltinn á leið í netið eftir fyrirgjöf frá Aroni Inga Magnússyni frá hægri yfir á fjærstöngina þar sem Fannar Daði Malmquist Gíslason var mættur. Skjáskot úr útsendingu á YouTube-rás Lengjudeildarinnar.
Fyrri hálfleikurinn hafði ekki beinlínis gefið fyrirheit um mikinn markaleik, en Þórsarar gáfu því langt nef strax í upphafi seinni hálfleiksins.
46. mínúta: 2-0
Það voru ekki nema 33 sekúndur liðnar af síðari hálfleiknum þegar Alexander Már Þorláksson hafði skallað boltann í netið, 2-0. Ragnar Óli Ragnarsson hafði þá átt fyrirgjöf frá hægri, boltinn barst út í teiginn og svo á Vilhelm Ottó vinstra megin í teignum, hann sendi áleiðis að markinu og Alexander Már var klár á nærstönginni og skallaði í netið af stuttu og frekar þröngu færi. Tæknilega séð voru innan við fjórar mínútur á milli markanna, leikmínútur, en á milli kom auðvitað leikhlé fyrir klefaræður í stúkunni og kökurnar í Hamri.
Alexander Már Þorláksson sneiðir boltann í markið á fyrstu mínútu síðari hálfleiks eftir sendingu Vilhelms Ottós. Skjáskot úr útsendingu á YouTube-rás Lengjudeildarinnar.
86. mínúta: 2-1
Ægismenn eygðu von um að fá eitthvað út úr leiknum þegar Ivo Alexandre Pereira og Cristofer Moises Rolin spiluðu sig laglega í gegnum vörn Þórsara í teignum og sá fyrrnefndi náði að pota boltanum fram hjá Aroni Birki í markinu. Einfaldur þríhyrningur í þröngri stöðu og mark.
89. mínúta: 3-1
Þórsarar unnu boltann í vörninni á miðjum eigin vallarhelmingi og brunuðu í sókn, þrír á tvo, Aron Ingi renndi boltanum til hægri á Ingimar Arnar Kristjánsson sem var í ágætu færi, en frekar en að skjóta ákvað hann að senda á Kristófer Kristjánsson sem skoraði af öryggi. Sannkallað unglingamark í lokin - 2004 > 2005 > 2004 > mark!
Ingimar Arnar rennir boltanum fyrir markið á Kristófer sem skoraði örugglega, 3-1. Skjáskot úr útsendingu á YouTube-rás Lengjudeildarinnar.
Með sigrinum í kvöld eru Þórsarar komnir með níu stig, hafa unnið þrjá leiki af fyrstu fimm. Liðið er jafnt Selfyssingum að stigum í 4.-5. sæti, en með lakari markamun.
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.
Næsti leikur liðsins í deildinni er útileikur gegn Þrótti laugardaginn 10. júní, en í millitíðinni kemur annað og stærra verkefni því strax á mánudag, 5. júní, fá Þórsarar bikarmeistara Víkings í heimsókn á Þórsvöllinn í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar. Leikur Þórs og Víkings hefst kl. 17:30.
Hér er hægt að horfa á upptöku af leiknum: