Hnefaleikadeild Þórs 2022

Sævar Ingi Rúnarsson, formaður Hnefaleikadeildarinnar, að störfum sem dómari í hnefaleikum.
Sævar Ingi Rúnarsson, formaður Hnefaleikadeildarinnar, að störfum sem dómari í hnefaleikum.

Sævar Ingi Rúnarsson, formaður Hnefaleikadeildar Þórs, hefur tekið saman eins konar annál fyrir árið hjá hnefaleikafólkinu okkar.

Árið 2022 hefur verið mjög spennandi ár fyrir Hnefaleikadeild Þórs.

Í janúar fór Elmar Freyr Aðalheiðarson til Finnlands að keppa á Tammer. Enn voru strangar samkomutakmarkanir í Finnlandi svo ferðin sjálf þótti ekkert sérstaklega skemmtileg og Elmar dróst á móti sterkasta keppanda þungavigtarinnar og tapaði í viðureign sem verður þó að telja mjög mikilvæg í reynslubankann hjá Elmari.

Febrúar byrjaði svo á bikarmóti HNÍ sem haldið var hjá HFK. Þar keppti Elmar Freyr gegn Magnúsi Kolbirni Eiríkssyni og sigraði eftir skemmtilega og spennandi viðureign. Stuttu seinna var svo mót hjá HFK gegn Bretum og Elmar fékk þar að mæta og keppa við þungavigtarmanninn frá Bretunum. Elmar var einu sinni sleginn niður í þeirri viðureign en þar fyrir utan var Elmar með öll völd í hringnum og var að mínu mati (hlutlaust) ranglega dæmdur ósigur.

Svo var haldið diplómamót í Reykjanesi og þar náði Ívan Þór Reynisson sér í diplóma, Róbert Smári Jónsson keppti sína fyrstu viðureign og Sveinn Sigurbjarnarson var að safna stigum í bronsmerki.

Í mars var svo Bikarmót HNÍ haldið hjá HR, þar mætti Elmar Freyr honum Magnúsi Kolbirni úr HFK og sigraði þá viðureign. Daginn eftir var svo haldið Diplómamót og þar náði Róbert Smári Jónsson sér í diplómaviðurkenningu og Sveinn Sigurbjarnarson, Alan Mackiewicz og Igor Biernat voru að safna stigum í brons og silfur merki.

Hnefaleikadeildin hélt svo sitt fyrsta skákmót í fjáröflunarskyni. Þátttakan var kannski ekki frábær, en 7 manns mættu og tefldu og hinn 11 ára Sigþór Árni Sigurgeirsson stóð uppi sem sigurvegari mótsins með 5 og ½ vinning.

Ísland hélt svo Norðurlandameistaramótið í boxi og átti Elmar að taka þátt í því en þurfti því miður að liggja heima með Covidið fræga, það voru því bara Sævar Ingi Rúnarsson (dómari) og Garðar Darri Gunnarsson (tímavörður) sem tóku þátt í Norðurlandamótinu fyrir Þórs hönd í ár.

Í apríl héldum við diplómamót hér á Akureyri sem var tveggja daga mót og kepptu allir krakkarnir a.m.k þrisvar sinnum, flest liðin mættu með keppendur á þetta mót og heppnaðist það mjög vel og er nú komið í dagatal HNÍ sem árlegur viðburður. Við áttum sex keppendur á mótinu og stóðu þau sig öll með prýði, Valgerður Telma og Lilja Lind fengu báðar Diploma viðurkenningu HNÍ, en þær voru báðar að keppa á sínu fyrsta móti. Kristinn Ómar Ágústsson og Sveinn Sigurbjarnarson náðu sér í bronsmerki HNÍ. Og Alan Mackiewicz og Igor Biernat náðu sér í silfurmerki HNÍ. Myndir frá mótinu má sjá hér: Diplómamót í Hnefaleikum á Akureyri | Þór - Hnefaleikar (thorsport.is).

Elmar Freyr Aðalheiðarson vann íslandsmeistaratitilinn í þungavigt í annað skiptið í röð. En hann keppti við Magnús Kolbjörn Eiríksson úr Hnefaleikafélagi Kópavogs.

Í maí fóru svo Lena Dís Sesseljudóttir og Sunje Henningson til Svíþjóðar að keppa á Golden Girl, var það fyrsta ferðin hans Garðars sem þjálfara. Ferðin var mjög góð en bæði Sunje og Lena töpuðu sínum viðureignum en ferðin samt góð fyrir reynslubankann góða. Elmar fór á sama tíma til Armeníu að keppa á Evrópumeistaramóti fullorðinna, og er hann fyrsti Íslendingurinn til að keppa á því. Það gekk hins vegar allt á afturfótunum hjá honum og þjálfaranum hans fyrir fyrstu umferð. Var Elmar t.d. í ólöglegum vafningum og stuttbuxum og þurfti að bjarga þessu öllu rétt fyrir leik svo Elmar hafði mjög takmarkaðan tíma til að hita upp fyrir bardagann. Þetta vissi Norðmaðurinn sem hafði fylgst vel með öllu ruglinu sem var að gerast hjá Íslendingunum og gerði vel í að kaffæra Elmar bara í fyrstu lotu og sá dómarinn sér engra annarra kosta völ en að stoppa viðureignina. Við skrifum þetta á reynsluleysi þar sem þetta var í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt í svo stóru (og ströngu) móti.

Í júlí hætti svo Daði Ástþórsson að þjálfa hjá okkur og flutti suður. Hann hefur þjálfað hjá okkur frá stofnun Hnefaleikafélags Akureyrar og þökkum við honum fyrir alla þá uppbyggingu og frábæra starf sem hann hefur unnið í okkar þágu. Garðar Darri Gunnarsson tók við sem aðalþjálfari og Lena Dís Sesseljudóttir starfar með honum, við áframhaldandi uppbyggingu hnefaleikara fyrir okkur.

Í október fórum við svo á bikar- og diplómamót sem haldin voru hjá HR. Elmar keppti gegn Magnúsi Kolbirni og laut í lægra haldi gegn honum í þetta sinn. Í Diplómahnefaleikum kepptu Valgerður Thelma Einarsdóttir, Lilja Lind Torfadóttir og Ívan Þór Reynisson og voru þau öll að safna stigum upp í bronsmerki. Við fórum til Hillerod í Danmörku með nokkra keppendur, Lenu Dís Sesseljudóttur, Ágúst Davíðsson, Igor Biernat og Svein Sigurbjarnason. Voru strákarnir að keppa sína fyrstu viðureign í ólympískum hnefaleikum en Lena að keppa eftir langt hlé. Öll stóðu þau sig mjög vel en töpuðu því miður bardögunum.

Í nóvember var svo Diplómamót hjá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar. Þar náði Aron Örn Oyola Stefánsson sér í Diplóma og Valgerður Thelma Einarsdóttir og Lilja Lind Torfadóttir í bronsmerki, Ívan Þór Reynisson var að safna stigum upp í bronsmerki. Svo var haldið bikarmót HNÍ, einnig í Hafnarfirði, og sigraði Elmar Freyr Aðalheiðarson hann Magnús Kolbjörn Eiríksson og var því orðinn bikarmeistari 2022. Sveinn Sigurbjarnarson keppti svo sína aðra viðureign í ólympískum hnefaleikum gegn Hafþóri Magnússyni en þurfti að lúta í lægra haldi. Hafþór hefur þegar keppt töluvert og er t.d. í landsliðinu svo það var á brattann að sækja fyrir Svein.

Deildin er að stækka jafnt og þétt og það stefnir í að við verðum komin með a.m.k. sjö keppendur í diplómahnefaleikum og a.m.k. sex í ólympískum á næsta ári.