Kátt í höllinni þegar Þór skellti Sindra

Kátt í höllinni þegar Þór skellti Sindra

Arturo fór mikinn í sigri Þórs gegn Sindra og skoraði 46 stig

“Þessir strákar eru sko ekki búnir að gefast upp” sagði Óskar Þór þjálfari Þórs eftir sigur liðsins gegn Sindra í kvöld og það eru svo sannarlega orð að sönnu.

En fyrirfram bjuggust flestir við að á brattann yrði að sækja hjá Þór sem hafði ekki unnið leik í vetur en Sindri var með átta sigra og þrjú töp.

Strax á fyrstu mínútum leiksins skynjuðu áhorfendur að Þórsliðið kom óvenju vel stemmt til leiks og menn ætluðu að selja sig dýrt. Gestirnir voru þó ögn sterkari framan af fyrsta leikhluta og komust í 11:17 og þegar um tvær mínútur voru eftir var staðan 15:22. Góður sprettur Þórs á loka sekúndunum varð til þess að staðan var jöfn eftir fyrsta fjórðung 26:26.

Leikurinn var jafn í öðrum leikhluta og skiptust liðin á að leiða en munurinn var þó ekki mikill eða 1-3 stig. Þór komst svo í 50:43 þegar rúm mínúta lifði af öðrum leikhluta en í þann mund er leiktíminn rann skorað Arturo flautu þrist og Þór leiddi því með átta stigum í hálfleik 54:46. Þór vann leikhlutann með átta stigum 28:20.

Þórsliðið spilaði mjög vel báðum megin vallarins og ljóst að leikmenn liðsins voru komnir með bullandi sjálfstraust. Í hálfleik höfðu alls átta leikmenn skorað og fremstir þar í flokki voru þeir Arturo með 16 stig og Toni 14.

Greina mátti pirring í leikmönnum gestanna sem brutu oft á tíðum klaufalega af sér en sá pirringur hafði sem betur fer engin áhrif á leikmenn Þórs sem einbeittu sér að leiknum.

Hjá gestunum var Oscar stigahæstur með 16 stig og Rimantas 11.

Mikil barátta var í báðum liðum í þriðja leikhluta og mikið skorað en Þór vann leikhlutann með þremur stigum 32:26. Ellefu stig munaði á liðunum þegar fjórði leikhlutinn hófst 86:75. Þórsarar leiddu allan loka fjórðunginn en þegar um fjórar mínútur lifðu leiks var munurinn komin niður í sex stig 100:94 og allt stefndi í æsispennandi loka mínútur.

En Þórsarar héldu haus og rúmlega það og bættu aftur í forystuna á lokasprettinum og fór þar fremstur í flokki Arturo sem var hreint út sagt óstöðvandi í kvöld. Þór sigldi svo öruggum fimmtán stiga sigri í höfn 116:101 og voru þau úrslit fyllilega verðskulduð.

Allir leikmenn Þórs áttu góðan dag og má með sanni segja að sigurinn hafi verið liðsheildarinnar. Til marks um það þá skoruðu 9 leikmenn og alls komu 23 stig af bekknum.

Arturo Fernandez var lang besti maður vallarins með 46 stig, Kolbeinn Fannar 19 og Toni 17.

Hjá gestunum var Oscar Teglgard með 28 stig og Rimantas Daunys 25 og Tyler Stewart 18.

Nánari tölfræði má sjá HÉR 

Staðan

Gangur leiks eftir leikhlutum: 26:26 / 28:20 (54:46) 32:29 / 30:26 =116:101

Hér að neðan eru viðtöl við Óskar Þór þjálfara Þórs og Arturo Fernandez en viðtölin tók Guðmundur Ævar Oddsson.

Myndir Páll Jóhannesson

Óskar Þór Þorsteinsson

Arturo Fernandez Rodriguez

Áfram Þór alltaf, alls staðar