Knattspyrna: Ævintýralegur endir í sigri Þórs á Aftureldingu

Þriðja mark Þórs. Birkir Heimisson (5) tók aukaspyrnu frá hægri sem Rafael Victor stýrði í mark gest…
Þriðja mark Þórs. Birkir Heimisson (5) tók aukaspyrnu frá hægri sem Rafael Victor stýrði í mark gestanna. Mynd: Ármann Hinrik

Þórsarar skutust upp í 2. sæti Lengjudeildar karla í knattspyrnu með 4-2 sigri á liði Aftureldingar í Boganum í gær. Lokamínúturnar urðu dramatískar í meira lagi.

Þórsarar byrjuðu illa, gáfu tvö mörk á upphafsmínútunum, en létu það ekki brjóta sig. Þeir náðu að minnka muninn í eitt mark ekki löngu síðar og voru síðan manni fleiri lengst af í seinni hálfleiknum. Það tók þá þó dágóðan tíma að jafna leikinn í 2-2 þó þeir væru einum fleiri.

Hinn sextán ára gamli Egill Orri Arnarsson skoraði jöfnunarmarkið, en þetta er hans fyrsta mark fyrir Þór í Lengjudeildinni. Þórsarar munu þó ekki njóta krafta hans nema í tæpa tvo mánuði enn því hann heldur utan til Danmerkur í atvinnumennsku 1. júlí.

Gestirnir misstu svo annan mann útaf með rautt spjald í uppbótartímanum og þá gerðust undrin, Þórsarar skoruðu tvö mörk með um mínútu millibili og hirtu öll stigin með þessum dramatískum endi á leiknum. 

Þór - Afturelding 4-2 (1-2)

  • 0-1 - Georg Bjarnason (2')
  • 0-2 - Andri Freyr Jónasson (8')
  • 1-2 - Birkir Heimisson (19')
  • 2-2 - Egill Orri Arnarsson (76')
  • 3-2 - Rafael Victor (90+4')
  • 4-2 - Sigfús Fannar Gunnarsson (90+5')
  • Leikskýrsla: Þór - Afturelding - (ksi.is)

Eftir vonbrigðajafntefli við Þrótt í fyrstu umferðinni er þessi dramatíski karaktersigur á Aftureldingu væntanlega góð vítamínsprauta fyrir Þórsliðið inn í næstu leiki. Þeir sitja nú í 2. sæti deildarinnar með fjögur stig. Næsta verkefni er reyndar bikarleikur, þegar liðið mætir Fjölni á útivelli í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar þriðjudaginn 14. maí kl. 17 í Egilshöllinni. Næsti leikur liðsins í Lengjudeildinni er svo útileikur gegn ÍBV í Eyjum mánudaginn 20. maí, annan í hvítasunnu.