Knattspyrna: Fyrsta tapið á heimavelli hjá Þór/KA

Hulda Ósk Jónsdóttir, Bryndís Eiríksdóttir og Margrét Árnadóttir sækja að marki Breiðabliks í einni …
Hulda Ósk Jónsdóttir, Bryndís Eiríksdóttir og Margrét Árnadóttir sækja að marki Breiðabliks í einni af hornspyrnunum sem Þór/KA fékk í leiknum. Mynd: Þórir Tryggva.

Þór/KA tók á móti Breiðabliki í 7. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í gær. Gestirnir skoruðu þrjú mörk og hirtu stigin þrjú sem voru í boði.

Leikurinn var sá fyrsti sem Þór/KA spilar á grasinu á VÍS-vellinum (Þórsvellinum), eftir þrjá sigurleiki í Boganum. Fyrir leikinn var Breiðablik á toppi deildarinnar með fullt hús stiga og Þór/KA í 2. sæti með 15 stig úr sex leikjum. 

Breiðablik komst yfir með slysalegu marki á 35. mínútu þegar það sem átti að vera fyrirgjöf endaði með því að boltinn datt inn í markið. Gestirnir með eins marks forystu eftir fyrri hálfleikinn. Á 53. mínútu kom annað ljótt mark þegar boltinn hreinlega lak yfir marklínuna eftir þvögu og baráttu í teignum hjá Þór/KA. Breiðablik klárði svo leikinn endanlega með marki í uppbótartíma.

Þór/KA - Breiðablik 0-3 (0-1)

  • 0-1 - Agla Albertsdóttir (35')
  • 0-2 - Vigdís Lilja Kristjánsdóttir (53')
  • 0-3 - Andrea Rut Bjarnadóttir (90+3')

Breiðablik er því áfram á toppi Bestu deildarinnar með fullt hús stiga, 21 stig úr sjö leikjum. Valur skaust aftur í 2. sætið, er með 18 stig úr sjö leikjum, en Þór/KA er í 3. sæti með 15 stig.

Hvíldin eftir þennan leik verður stutt og strax tækifæri til að svara fyrir frammistöðuna. Þór/KA á útileik gegn FH á Kaplakrikavelli í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar strax á þriðjudag kl. 17:15 og svo næsta leik í deildinni, einnig útileik, gegn Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabæ laugardaginn 15. júní. 

Leikurinn gegn Breiðabliki í gær var sá fyrsti á þessu ári sem Þór/KA skorar ekki mark, en áður hafði liðið leikið samtals 17 leiki í Kjarnafæðimótinu, Lengjubikarnum, Mjólkurbikarkeppninni og Bestu deildinni og skorað mörk í þeim öllum, samtals 64 mörk. 

Nánar á thorka.is.