Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þór/KA tekur á móti liði Víkings á Greifavellinum kl. 14 á morgun, laugardaginn 5. október, í lokaumferð efri hluta Bestu deildarinnar.
Fyrir leikinn eru liðin í 3. og 4. sæti deildarinnar. Þór/KA hefur einu stigi meira, er með 34 stig í 3. sætinu, en Víkingur kemur fast á hælana með 33 stig í 4. sætinu. Liðin hafa mæst tvisvar á árinu og unnust báðir leikirnir á útivelli. Þór/KA vann 2-1 sigur á Víkingsvellinum snemma í maí þar sem Sandra María Jessen og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir skoruðu mörkin. Mark Ísfoldar var fyrsta mark liðsins í deildinni sem Sandra María skoraði ekki. Seinni leikurinn fór fram á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) í júlí og þar höfðu Víkingar betur, 2-0. Þessir tveir leikir eru einu innbyrðis viðureignir þessara liða í efstu deild.
Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum sem fylgjast með fótbolta að Sandra María Jessen verður markadrottning deildarinnar. Hún hefur nú þegar skorað 22 mörk og er svo langt fyrir ofan aðra leikmenn að jafnvel kraftaverk myndi ekki breyta því.
Það væri því vel við hæfi að fá fjölmenni á völlinn til að styðja stelpurnar og hylla Söndru Maríu og liðið allt og þjálfarateymið að loknu mjög góðu tímabili. Það er svo kannski minna þekkt staðreynd, en liggur þó ljóst fyrir í tölfræði yfir deildina að Hulda Ósk Jónsdóttir á í harðri baráttu um að verða stoðsendingadrottning deildarinnar. Niðurstaðan varðandi stoðsendingarnar verður þó ekki ljós fyrr en eftir lokaleik deildarinnar, milli Vals og Breiðabliks, sem hefst eftir að öðrum leikjum lýkur.
Upphitun fyrir leik verður hefðbundin, borgarar beint af grillinu eins og alltaf og svo skemmtun inni á vellinum frá því að flautað verður til leiks.
Nánar verður farið yfir árangurinn í sumar og alls konar tölfræði og fróðleik á næstu dögum, að móti loknu.
Sjáumst á Greifavellinum fyrir kl. 14, heyrumst í stúkunni, verum með í gleðinni!