Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Í fyrsta skipti í 45 ár teflir Þór nú fram liði í efstu deild kvenna í körfubolta. Stelpurnar urðu í 2. sæti 1. deildar í vor og unnu sér inn sæti í Subway-deildinni. Átökin í Subway-deildinni hefjast á morgun og stelpurnar okkar eiga heimaleik.
Árskort körfuknattleiksdeildar eru komin í sölu. Kortin gilda á alla deildarleiki beggja liðanna í Höllinni, kvennaliðsins í Subway-deildinni og karlaliðsins í 1. deildinni, og kostar 25.000 krónur. Sala árskorta hefst í Höllinni fyrir leik Þórs og Stjörnunnar.
Keppni í Subway-deildinni hefst í kvöld með heimaleik Þórs gegn Stjörnunni, en þessi lið börðust í vor um sigur í 1. deildinni og hafði Stjarnan sigur í oddaleik eftir skemmtilegar viðureignir. Það er því tímabært að fara yfir stöðuna, heyra frá þjálfaranum og fara yfir leikmannahópinn.
Daníel Andri Halldórsson verður áfram þjálfari liðsins, en hann átti stóran þátt í að koma liðinu af stað aftur eftir að Þór tefldi ekki fram kvennaliði leiktíðirnar 2019-2020 og 2020-21 og hefur þjálfað liðið frá því það var endurvakið. Núna í haust var Hlynur Freyr Einarsson ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins.
Daníel Andri segir undirbúningstímabilið fyrir átökin í efstu deild hafa gengið vel. „Við höfum verið að glíma við einhver meiðsli og veikindi en það er margfalt betra að klára það núna frekar en að standa í slíkum leiðindum á miðju tímabili,“ segir Daníel Andri þegar hann er inntur eftir því hvernig hafi gengið.
„Stelpurnar eru tiltölulega nýkomnar heim frá Portúgal eftir vel heppnaða æfingaferð. Það voru 12 leikmenn sem fóru með í ferðina en aðrar sáu sér ekki fært að koma með vegna vinnu,“ segir Daníel. Liðið æfði í Lissabon og síðustu tvo dagana spilaði liðið æfingaleiki við heimalið, fyrst gegn Odivelas BC, sem hann segir hafa verið frábæran leik fyrir sjálfstraustið. „Ég man nú ekki lokatölur, en við unnum með rúmlega 70 stiga mun, að ég held.“ Seinni leikurinn var mun erfiðari, en þá mættu Þórsstelpurnar Eurocup-liði Benfica á þeirra heimavelli.
„Við vorum alveg einstaklega lítið undirbúin fyrir þennan leik og var það nokkuð yfirþyrmandi að ganga um þetta magnaða félagssvæði sem klúbbur af þessari stærðargráðu æfir og spilar á. Lið Benfica var alveg troðfullt af flottum leikmönnum en þar eru fjórar portúgalskar landsliðskonur og amerískir leikmenn, þannig ég get ekki sagt að við höfum verið rosalega bjartsýn í upphafi leiks.“
Frábær stemning og leikgleði á örugglega eftir að skipta miklu fyrir gengi Þórsliðsins í vetur.
En Þórsstelpurnar komu sjálfum sér og þjálfara sínum á óvart og áttu í fullu tré við lið Benfica. „Þegar fórum inn í hálfleik með eins stigs forskot fórum við loks að átta okkur á að við værum í flottum séns að klára þennan leik. Með baráttu og góðu flæði í sókninni urðu heimakonur, og átta manna þjálfarateymið þeirra, óþolinmóð og pirruð. Leikmaður Benfica klúðrar seinna vítinu sínu á lokasekúndum leiksins þegar þær leiddu með tveimur stigum. Boltinn gekk hratt upp völlinn og við fengum galopinn þrist til að klára leikinn og vinna með einu stigi.“ Þristurinn fór ofan í og Þór vann Benfica á þeirra heimavelli með eins stigs mun. Daníel segir þetta hafa verið lyginni líkast að ná þessum úrslitum miðað við undirbúninginn fyrir leikinn, hvað þá á móti liði sem spilar í Eurocup.
„Nú erum við hins vegar komin heim og undirbúningur heldur áfram eftir frábæra ferð. Nýir leikmenn, bæði þær íslensku og þær erlendu, eru að koma virkilega sterkar inn í okkar frábæra hóp.“
Miklar breytingar hafa orðið á Subway-deildinni frá því í fyrra, fjölgað úr átta liðum í tíu og spiluð tvöföld umferð, en deildinni síðan tvískipt í efri og neðri hluta, fimm lið hvoru megin og spiluð einföld umferð, áður en hefðbundin úrslitakeppni tekur við. Það er því von á mörgum skemmtilegum leikjum í Höllinni í vetur!
„Mörg lið úr efri hluta síðasta tímabils eru að styrkja sig umtalsvert en ég vona að við getum komið á óvart í þessari frumraun okkar í efstu deild, 45 árum frá því að Þór átti síðast lið í efstu deild kvenna í körfubolta.
Okkur öllum, þjálfurum og leikmönnum, þykir raunhæft að stefna á sæti í þessum efri hluta þegar deildinni verður skipt í tvennt í lok janúar en fyrst og fremst er bara gaman að fá tækifærið að gera þetta öll saman.“
Nýr leikmaður Þórs, hin belgíska Lore Devos, í æfingaleik liðsins gegn Hamri/Þór á dögunum. Mynd: Páll Jóhannesson.
Daníel Andri er ánægður með að hefja tímabilið á heimavelli fyrir framan okkar fólk, á móti Stjörnunni. „Ég þekki mínar konur nægilega vel til að fullyrða að þær mæta grimmar til leiks, en þær eiga harma að hefna eftir seríuna gegn Stjörnunni í lokaúrslitum 1. deildar á síðasta tímabili. Svo auðvitað vona ég að allir Akureyringar komi í Höllina til að styðja okkar stelpur í körfunni.“
Aðeins einn leikmaður sem spilaði með liðinu í fyrravetur hefur leitað á önnur mið, en fjórar eru komnar nýjar inn í hópinn.
Komnar:
Hulda Ósk Bergsteinsdóttir frá KR
Jovanka Ljubetic frá CD Universitario Concepcion í Chile
Lore Devos frá Castors Braine í Belgíu
Rebekka Hólm Halldórsdóttir frá Tindastóli
Farnar:
Tuba Poyraz til Þýskalands
Leikmannalisti
Emma Karólína Snæbjarnardóttir (2008), bakvörður/framherji
Eva Wium Elíasdóttir (2004), bakvörður
Heiða Hlín Björnsdóttir (1997), bakvörður/framherji
Hrefna Ottósdóttir (2001), bakvörður
Hulda Ósk Bergsteinsdóttir (1999), framherji/miðherji
Jovanka Ljubetic (2000), bakvörður, 2000
Karen Lind Helgadóttir (2003), bakvörður
Katrín Eva Óladóttir (2003), framherji
Kristín María Snorradóttir (2003), framherji
Lore Devos, framherji (1999), framherji
Maddie Sutton (1998), framherji/miðherji
Rebekka Hólm Halldórsdóttir (2005), bakvörður
Rut Herner Konráðsdóttir (1989), framherji
Vaka Bergrún Jónsdóttir (2008), bakvörður
Valborg Elva Bragadóttir (2006), bakvörður/framherji
Þjálfarar
Daníel Andri Halldórsson, þjálfari
Hlynur Freyr Einarsson, aðstoðarþjálfari
Mismunur á spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna félaganna annars vegar og fjölmiðlafólks hins vegar vakti athygli Þórsara. Það hefur reyndar ekkert lið fengið bikar eða fallið úr deild vegna spádóms, það er frammistaðan í leikjum vetrarins sem skiptir máli - og stundum geta hrakspár átt þátt í því að hvetja lið og leikmenn til dáða. Mögulega hefur fjölmiðlafólk fært Þórsurum eitt aukavopn í safnið fyrir veturinn.
Karfan.is átti líka spjall við Daníel þjálfara, sem komst skemmtilega að orði eins og við mátti búast.
Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórs, var í viðtali hjá körfuboltavefnum karfan.is eftir kynningarfund Subway-deildarinnar.