Körfubolti: Stelpurnar hafa lokið keppni

Silfur í VÍS-bikarnum og átta liða úrslit í Subway-deildinni. Nýliðar í efstu deild geta vel við slí…
Silfur í VÍS-bikarnum og átta liða úrslit í Subway-deildinni. Nýliðar í efstu deild geta vel við slíkan afrakstur unað.

Áhugaverðu og í raun ævintýralegu tímabili kvennaliðs Þórs í körfubolta lauk í gærkvöld þegar liðið mætti Grindavík í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar. Grindvíkingar höfðu sigur og unnu einvígið. Þórsliðið er því úr leik og hefur lokið keppni þetta árið.

Þrátt fyrir að hafa verið slegnar út úr keppninni í þremur leikjum gegn Grindvíkingum geta Þórsstelpurnar, þjálfarar og stjórn litið stolt til baka eftir tímabilið. Liðið var lengi vel í baráttu um að vera í efri hluta deildarinnar fyrir tvískiptingu og komst í úrslitaleik VÍS-bikarsins, einmitt eftir stórkostlegt undanúrslitakvöld og sigur Grindvíkingum. Því miður náðist ekki að fylgja þeirri bylgju eftir í úrslitaeinvíginu, en það koma ný tækifæri á næsta tímabili.


Þórsliðið fyrir annan leikinn í einvíginu. Aftari röð: Daníel Andri Halldórsson þjálfari, Hlynur Freyr Einarsson aðstoðarþjálfari, Karen Lind Helgadóttir, Lore Devos, Heiða Hlín Björnsdóttir, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir, Maddie Sutton, Katrín Eva Óladóttir. Fremri röð: Vaka Bergrún Jónsdóttir, Valborg Elva Bragadóttir, Hrefna Ottósdóttir, Emma Karólína Snæbjarnardóttir og Rebekka Hólm Halldórsdóttir. Fremst: Eva Wium Elíasdóttir. Mynd: Páll Jóhannesson.

Grindvíkingar höfðu yfirhöndina í leiknum og unnu alla fjóra leikhlutana, en þó engan þeirra með miklum yfirburðum. Sjö stiga munur var eftir fyrri hálfleikinn, en þriðji leikhlutinn tapaðist því miður með átta stigum og erfitt að snúa því við í fjórða leikhlutanum.

Grindavík - Þór (25-20) (22-20) 47-40 (26-18) (20-17) 93-75

Stig/fráköst/stoðsendingar

Lore Devos 24/8/3, Hrefna Ottósdóttir 15/0/1, Eva Wium Elíasdóttir, 11/2/3, Maddie Sutton 9/14/4, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 7/5/3h, Karen Lind Helgadóttir 4/0/0, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 3/2/1, Heiða Hlín Björnsdóttir, 2/1/0, Valborg Elva Bragadóttir 0/2/0, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 0/1/0


Athyglin á liðinu og leikmönnum var mikil í bikarvikunni og var hún mjög vel höndluð af öllum hlutaðeigandi

Í umfjöllun á Vísi eftir leikinn í gærkvöld er rætt við Daníel Andra Halldórsson, þjálfara Þórs. Þar er meðal annars þetta:

„Ég er alveg barnalega tapsár, sama hvern ég er að spila við. En ég var inni í klefa að minna stelpurnar á það sem við höfðum náð á þessu tímabili. Við vorum nú bara í baráttu um efri hlutann þegar eitt atvinnumannagildið okkar fór bara rétt fyrir gluggalok.“

„Við vissum að þetta yrði erfiðara seinni hlutann af tímabilinu en komum okkur samt í bikarúrslit. Þetta lið var bara endurvakið fyrir þremur árum og við erum bara að taka þetta í litlum skrefum og eru kannski bara á öðrum stað í okkar vegferð heldur en Grindavík og þessi topplið akkúrat núna.“

Það er vissulega ágætis árangur hjá nýliðum að ná í bikarúrslitaleik og komast í úrslitakeppni og Daníel sagðist líta á þetta tímabil sem stórt innlegg í reynslubankann fræga.

„Það voru alltaf háleit markmið um að efri hlutann og við vorum á góðu róli að komast þangað. Á fyrsta tímabili vill maður bara spila við þessar bestu, fá reynsluna og byggja ofan á það, safna sjálfstrausti og sérstaklega fyrir næsta tímabil. Að Þór geti gert betri hluti á næsta ári og með hverju árinu.“

Næst barst umræðan að leik kvöldsins og seríunni í heild, sem má kannski draga saman með þeim orðum að Grindavík hafi einfaldlega verið númeri og stórar fyrir nýliðana.

„Þær eru klárlega dýpri en við á bekknum en kannski ekki endilega dýpri heldur með fleiri leikmenn sem eru til í að skora og láta finna fyrir sér. Ég held að þetta komi bara með reynslunni“. Allar þessar stelpur sem eru í róteringu hjá Grindavík hafa spilað, sumar bara lengi, í efstu deild en hjá okkur eru bara einhverjar ein tvær með einhverja reynslu af ruslamínútum. Við erum bara að safna reynslu og vonandi verðum við á svipuðum stað og þær á næsta tímabili.“