Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þór mætir liði ÍA á heimavelli í 20. umferð Lengjudeildarinnar kl. 14 í dag. Liðið á enn möguleika á umspilssæti með góðum endaspretti, en er þó aðeins einu stigi ofan við næstu fjögur lið og hefur sogast inn í gríðarlega spennandi baráttu fimm til sex liða um að forðast fall úr deildinni.
Fyrir leikinn í dag er Þór í 7. sæti deildarinnar með 24 stig og er eftir úrslit fyrstu tveggja leikja 20. umferðarinnar aðeins einu stigi ofan við fallsæti þar sem bæði Þróttur og Selfoss unnu sína leiki og hleyptu mikilli spennu í fallbaráttuna. Þróttur, Grótta, Njarðvík og Selfoss eru öll með 23 stig, aðeins stigi á eftir Þór. Þórsarar sækja síðan Gróttu heim í næstsíðustu umferðinni eftir viku og fá Grindavík í heimsókn í lokaumferðinni 16. september.
Breytingin sem gerð var á deildinni, með því að aðeins eitt lið fer beint upp, en liðin í 2.-5. sæti fari í umspilsleiki, gerir það að verkum að mun fleiri lið hafa nú að einhverju að keppa. Með gamla fyrirkomulaginu væru nú aðeins þrjú lið eftir í keppninni um sæti í Bestu deildinni, Afturelding, ÍA og Fjölnir.
Þó líkurnar hafi minnkað nokkuð með úrslitum leikja í 19. umferðinni eiga Þórsarar þó einnig enn möguleika á að ná einu af umspilssætunum, en þá þurfa önnur úrslit einnig að falla með þeim. Skagamenn eru hins vegar það lið sem hefur verið á mestu skriði í deildinni að undanförnu og eina liðið sem ekki hefur tapað í síðustu fimm leikjum, eru nú í mikilli baráttu við Aftureldingu um að hirða efsta sæti deildarinnar og fara þannig beint upp í Bestu deildina.
Þór og ÍA hafa mæst 30 sinnum í næstefstu deild Íslandsmótsins og Skagamenn oftar haft betur.