Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Páll Jóhannesson var í gær sæmdur heiðursfélaganafnbót í Íþróttafélaginu Þór á samkomu í tilefni af 108 ára afmæli félagsins.
Nói Björnsson formaður flutti eftirfarandi ræðu um Pál við athöfnina:
Um Pál Jóhannesson eða Palla Jó eins og við þekkjum hann er ekki erfitt að skrifa. Það er einfaldlega ekki til meiri Þórsari en Páll. En hvað þýðir að vera Þórsari?
Hugum að því.
Afrek Páls á leikvangi íþróttagreina verða ekki tíunduð hér, heldur munum við horfa til hans þáttar í að vera þórsari sem spurði eins og forsetinn forðum, „ekki hvað félagið gæti gert fyrir mig, heldur, hvað get ég gert fyrir félagið mitt“
Páll kom að starfi Þórs sem foreldri og sannarlega lét hann til sín taka þar strax og svo má segja að frá þeim degi hlóðust að honum störfin smá sem stór fyrir félagið og það skipti engu hvert verkið var, Palli mætti.
Heimasíða Þórs thorsport.is var starfsvettvangur Palla í mörg ár og fullyrða má að fáar ef engar heimasíður íþróttafélaga voru eins lifandi og öflugar og síða Þórs.
Viðtöl, ljósmyndir, umfjallanir leikja í öllum greinum og öllum aldursflokkum, fréttir og fleira og fleira gerði einmitt Þórsíðuna að glæsilegri fréttasíðu svo eftir var tekið um land allt, og þar var handbragð Palla svo sannarlega sýnilegt, því hann var allt í senn, sá sem viðtölin tók, sá sem myndirnar tók, og loks sá sem skrifaði svo fréttirnar. Geri aðrir betur. Ljósmyndasafn Páls úr félagsstarfinu skipta tugum þúsunda mynda og eru dýrmætar heimildir um sögu sem var, sögu sem enn er verið að segja og þar er Palli enn að munda myndvélina og segja söguna.
Á sama tíma var Palli Jó starfandi ritari aðalstjórnar félagsins og sat í stjórn félagsins í mörg ár, og það verk vann hann af svo miklum metnaði og fagmennsku að síðari tíma sagnfræðingar munu þakka honum greinagóðar fundargerðir félagsins.
Saga Íþróttafélagsins Þórs sem telur orðið rúma öld var og er Palla Jó mjög hugleikin og engin núlifandi félagsmaður býr yfir eins mikilli þekkingu og vitneskju um gengin spor félagsins, og sú staðreynd er ekki bara félaginu dýrmæt heldur líka sögu íþróttastarfs á Akureyri á liðinni öld.
Þegar félagið hefur þurft að rifja upp liðna tíð er alltaf fyrst leiðað í kistu Palla Jó og óteljandi greinar liggja eftir Palla um og úr sögu félagsins og má þar nefna sérstaklega frá riti er Páll tók saman um slysið hörmulega er varð á Óshlíðarvegi milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur árið 1951 þegar tveir Þórsarar létu þar lífið þegar bjarg féll á hópferðarbifreið þeirra, en stór hópur Þórsara var það á ferð í keppnisferð. Sú samantekt Páls er í senn sorgleg en um leið mjög merkileg heimild sem aldrei má gleymast.
Páll Jóhannesson er enn að vinna fyrir félagið sitt og kemur að ýmsum tilfallandi verkum, og sannarlega eiga kjörorð Palla sem hann notar sem lokaorð við allar sínar umfjallanir vel við, nú þegar um hann sjálfan er fjallað „Áfram Þór , alltaf, alstaðar“
Íþróttafélagið Þór óskar Palla til hamingju með heiðursfélaganafnbótina og þakkar honum farsæl störf í þágu félagsins.
Myndaalbúm frá athöfninni - Ármann Kolbeinsson.