Pílukast: Dilyan Kolev sigurvegari fyrsta kvöldsins í úrvalsdeildinni

Úrvalsdeildin í pílukasti hófst síðastliðið laugardagskvöld. Keppt var á Selfossi og sýnt var frá kvöldinu í beinni útsendingu á Stöð2 Sport.
Þetta var fyrsta kvöldið af sjö en 16 bestu pílukastarar landsins eru þarna samankomnir. Átta keppendur keppa á hverju kvöldi og safna keppendur stigum, átta stigahæstu keppendurnir fá sæti á úrslitakvöldi úrvalsdeildarinnar sem verður haldið laugardagskvöldið 7. desember á Bullseye.

Tveir keppendur frá píludeild Þórs, Matthías Örn og Dilyan Kolev, voru í sviðsljósinu á laugardagskvöldið. Þeir færðu sig nýverið yfir til píludeildar Þórs og undirrituðu tveggja ára samning.

Matti mætti Lukasz Knapik í fyrsta leik en um beinan útslátt er að ræða. Það fór svo að Lukasz bar sigur úr bítum, 4-2. Matti spilaði þó vel og var með 76 í meðaltal í þremur pílum.

Kolev var næstur á svið og mætti Birni Steinari og vann nokkuð öruggan 4-1 sigur. Í undanúrslitum var það Lukasz Knapik sem beið hans. Kolev sigraði þann leik 4-2 og var því mættur í úrslitaleik. Í úrslitaleiknum sýndi Kolev hvers hann er megnugur en hann lenti 1-3 undir en náði að snúa leiknum við og vinna 4-3 en í lokaleggnum tók hann út 110. 

Hér er hægt að sjá viðtal við Kolev eftir sigurinn ásamt lokaleggnum. Hér er svo hægt að skoða alla leiki kvöldsins.

Laugardagskvöldið 16. nóvember verður úrvalsdeildin haldin í Sjallanum. Hér er hægt að tryggja sér miða. Kolev verður í eldlínunni 16. nóvember og því hvetjum við alla þórsara að mæta og styðja sinn mann.

Til viðbótar þá keppti Dilyan Kolev í Selfoss Open sem var haldið á föstudagskvöld og á laugardeginum. Á föstudagskvöldið var keppt í tvímenning og sigraði Kolev þá keppni með Karli Helga. Á laugardeginum var keppt í einmenning og Kolev gerði sér lítið fyrir og vann Selfoss Open. 

Frábær helgi hjá Dilyan Kolev! 

Við óskum honum innilega til hamingju með sigurinn.

 

Matthías Örn Friðriksson                                       Dilyan Kolev