Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Í ár eru 80 ár liðin frá því að Þór og KA ákváðu að senda sameiginlegt lið til þátttöku á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla.
Brotið var blað í sögu Þórs og KA þegar félögin ákváðu að senda sameiginlegan flokk til þátttöku á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla. Samkvæmt samningi átti að senda liðið til keppni tvö ár í röð. Liðið lék undir merkjum Íþróttaráðs Akureyrar (Í.R.A). 15 manna hópur lagði af stað þriðjudaginn 15. júní klukkan 07:00 með bíl frá B.S.A. Komið var til Reykjavíkur kl. 21:30. Knattspyrnufélagið Fram sá um móttökur flokksins í Reykjavík, sem hafði aðsetur í Austurbæjarskólanum en borðað var í Háskólanum. Var þetta í fyrsta skipti að tvö félög utan Reykjavíkur léku saman í Íslandsmóti, þ.e.a.s. Akureyringar og Vestmannaeyingar. Að kvöldi þriðjudags var fyrsti leikur Akureyringa gegn Fram og töpuðu okkar menn 5:2. Annar leikur liðsins var gegn Eyjamönnum og skildu liðin jöfn 1:1. Þriðji leikur liðsins var gegn Val, sem tapaðist 2:1. Síðasti leikur liðsins var gegn KR sem fram fór á fimmtudeginum og höfðu okkar menn óvæntan en sanngjarnan sigur, 4:1. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar með 8 stig, KR í öðru sæti með 4, Fram í þriðja með 4, síðan ÍRA með 3 stig og ÍBV 1 stig.
Ekki bara fótbolti. Akureyringar fengu höfðinglegar móttökur meðan á dvöl þeirra syðra stóð. Þessi ferð var ekki bara fótbolti, heldur svo miklu meira. Mikið var um dýrðir og fjölbreytt dagskrá 17. júní en þá fóru fram mikil hátíðarhöld á íþróttavellinum í tilefni dagsins. Flokkurinn naut hinna fjölbreyttu íþróttakeppna og sýninga.
Skotist til Hafnarfjarðar og Bessastaða. Á föstudeginum 18. júní bauð Knattspyrnufélagið Fram flokknum til Hafnarfjarðar og ýmsir staðir skoðaðir bæði í Hafnarfirði og á leiðinni heim var komið við á Bessastöðum.
Úrslitaleikur á hvíta tjaldinu. Þegar heim var komið úr þeirri ferð horfði flokkurinn á kvikmynd Í.S.Í frá úrslitaleik Þórs og Ármanns í Handknattleiksmeistaramótinu 1941, þegar Þórsstúlkur urðu Íslandsmeistarar. Þennan dag fór einnig fram úrslitaleikur Íslandsmeistara Þórs og Ármanns í handbolta, þar sem Ármenningar höfðu betur og okkar konur enduðu í öðru sæti.
Farið að Gullfossi og Geysi. Á laugardeginum 19. júní var Akureyringum og Vestmannaeyingum boðið að Gullfossi og Geysi. Með í förinni voru Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, Erlendur Pétursson, formaður KR, Jón Þórðarson, varaformaður Fram, og fulltrúi bæjarstjórnar, Ragnar Lárusson.
Kaffi í Skíðaskálanum. Fyrsta stopp var í Skíðaskála Skíðafélags Reykjavíkur og þar var drukkið kaffi og síðan ekið að Gullfossi og Geysi. Þegar komið var að Gullfossi var staldrað við nokkra stund. Er að Geysi var komið var snæddur miðdegisverður og undir borðum voru margar ræður fluttar. Á heimleið var drukkið kaffi í Skíðaskála ÍR að Kolviðarhóli og heimkoma um miðnætti.
Sólskin og blíða á Þingvöllum. Á miðvikudeginum 23. júní bauð Fram hópnum til Þingvalla þar sem dvalið var í sólskini og blíðu, þar voru ýmsir merkir staðir skoðaðir.
Heimför. Áður en haldið var heim á leið, þ.e. norður, bauð Fram til kveðjusamdrykkju á fimmtudagskvöldinu og þar flutti Ólafur Halldórsson, formaður Fram, flokknum þakkir fyrir komuna og afhenti hverjum manni minningargjöf. Jón Kristinsson, formaður Þórs, þakkaði góðar móttökur og óskaði Fram allra heilla í framtíðinni. Erlendur Pétursson flutti flokknum kveðjur frá KR og slíkt hið sama gerði Einar Björnsson fyrir hönd Vals.
Góðar móttökur í Borgarnesi. Haldið var heim á leið klukkan sjö að morgni, tekið var stutt stopp í Borgarnesi og þar buðu systkinin Hulda og Bjarni Pétursbörn flokknum upp á smurt brauð og mjólk áður en lengra var haldið. Flokkurinn kom til Akureyrar klukkan 20:00.
Þessir leikmenn fóru í umrædda ferð: Baldur Arngrímsson (Þór), Sveinn Kristjánsson (KA), Guttormur Berg (Þór), Jósteinn Konráðsson (KA), Gunnar Konráðsson (Þór), Árni Ingimundarson (KA), Snorri Sigfússon (Þór), Helgi Schiöth (KA), Sigtryggur Ólafsson (Þór), Þórhallur Guðlaugsson (KA), Júlíus B. Magnússon (Þór), Páll Línberg (KA), Arnaldur Árnason (Þór) og Hugi Ásgrímsson (Þór). Fararstjóri var Jón Kristinsson og með í för var Sigmundur Björnsson (Þór).