Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Gengið var frá undirskriftum við allt þjálfarateymi knattspyrnudeildar hjá meistaraflokki karla í Hamri í hádeginu í dag, í aðdraganda fyrsta leik liðsins þar sem Þór mætir KA 2 í fyrstu umferð Kjarnafæðimótsins í fótbolta í Boganum í kvöld klukkan 19:00.
Liðið hefur æft af krafti frá því í nóvember og hafa því allir þjálfarar þegar hafið störf.
Knattspyrnudeild lýsir yfir mikilli ánægju með að allt sé komið á hreint varðandi þjálfaramálin og bindur miklar væntingar við störf teymisins. Um leið hvetjum við Þórsara til að fylkja sér á bak við liðinu í baráttunni næsta sumar.
Sem fyrr segir er undirbúningstímabilið að fara formlega af stað í kvöld þegar Kjarnafæðimótið hefst. Í byrjun febrúar fer svo Lengjubikarinn af stað og má nálgast riðilinn hjá okkar mönnum með því að smella hér.
Sigurður Heiðar Höskuldsson er nýr aðalþjálfari meistaraflokks karla og gerir samning við knattspyrnudeild út árið 2026. Sigurður Heiðar starfaði síðast sem aðstoðarþjálfari Vals en stýrði þar áður Leikni Reykjavík, bæði í efstu og næstefstu deild. Sigurður er ráðinn í fullt starf og mun ásamt því að þjálfa meistaraflokk karla hafa aðkomu að fótboltamálum 2. flokks félagsins og taka virkan þátt í uppbyggingu æfingaáætlana og stefnu í 2-4.flokki í samvinnu við yfirþjálfara félagsins.
Sveinn Leó Bogason er áfram aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla líkt og undanfarin tvö ár. Sveinn Leó gerir eins árs samning með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum. Sveinn Leó er borinn og barnfæddur Þórsari og var þjálfari 2.flokks karla áður en hann tók við starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks fyrir tveimur árum síðan.
Jónas L. Sigursteinsson heldur áfram að sjá um markmannsþjálfun meistaraflokks karla en hann kom inn í það starf fyrir ári síðan. Jónas hefur áratuga reynslu af þjálfun og hefur komið að þjálfun nær allra, ef ekki allra flokka Þórs á sínum þjálfaraferli auk þess að hafa þjálfað um árabil hjá Vestra.
Stefán Ingi Jóhannsson verður styrktarþjálfari meistaraflokks karla. Stefán þekkir vel til hjá okkur eftir að hafa komið að bæði sjúkra- og styrktarþjálfun undanfarin ár en tekur nú að sér enn stærra hlutverk í þjálfarateyminu.
Arnar Geir Halldórsson er ráðinn í nýtt starf hjá knattspyrnudeild þar sem hans hlutverk í teyminu er að leiða afreksstarf yngstu leikmanna meistaraflokks auk þess að taka að sér önnur verkefni fyrir knattspyrnudeild.
Arnar Geir hefur verið yfirþjálfari yngri flokka frá árinu 2020 og heldur því starfi áfram samhliða en í breyttri mynd með höfuðáherslu á 2.-4.flokk og er það hluti af skipulagsbreytingum hjá unglingaráði.