Dagur sjálfboðaliðans - myndasafn

Dalton-bræður? Vesti og grímur á sínum stað á körfuboltaleik í heimsfaraldri og menn í það minnsta b…
Dalton-bræður? Vesti og grímur á sínum stað á körfuboltaleik í heimsfaraldri og menn í það minnsta búnir að raða sér upp í stíl þeirra bræðra. Frá vinstri: Björn Halldór Sveinsson #4, Rúnar Steingrímsson, Árni Páll Halldórsson og Jónas Þór Hafþórsson. Mynd: Palli Jóh

Í tilefni af degi sjálfboðaliðans sem haldið er upp á víða í dag, 5. desember, til að vekja athygli á mikilvægi sjálfboðastarfs í starfsemi íþróttafélaga og annarra samtaka fengum við Palla Jóh til að gramsa í gömlum hirslum og raka saman nokkrum myndum af sjálfboðaliðum hjá félaginu í gegnum árin. 

Palli snaraði fram vel á annað hundrað myndum á örskotsstundu og við settum þær saman í albúm hér á vefnum. Kannski eigum við svo eftir að bæta reglulega nýjum myndum af sjálfboðaliðum við störf á vegum félagsins. Rétt er að geta þess að þetta myndaalbúm er alls ekki tæmandi listi yfir allt það fólk sem vinnur og hefur unnið fyrir félagið í sjálfboðastarfi í gegnum árin.

Smellið á myndina hér að neðan til að opna albúmið.


Eflaust hafa fæst okkar áhuga á að rifja upp árin þegar heimsfaraldurinn setti stór strik í reikninginn í öllu okkar starfi. Þessi mynd af Rúnari Steingrímssyni á fótboltaleik á Þórsvellinum sýnir kannski hve fjölbreytt störf sjálfboðaliðans geta orðið. Hér er hann að spritta og þurrka af fótbolta, samkvæmt sóttvarnareglum sem giltu á þessum tíma. Mynd: Palli Jóh