Góðar umræður á súpufundi Þórs

Góðar umræður á súpufundi Þórs

Í dag var 33 súpufundur Íþróttafélagsins Þórs og veitingahússins Greifans haldinn í Hamri.

Nú var það pólitíkin sem átti sviðið og næstu súpufundir verða einmitt með fulltrúum þeirra flokka sem bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum í vor hér í bæ.

Í panel í dag voru fulltrúar S lista Samfylkingarinnar Hilda Jana Gísladóttir og fulltrúi M lista Miðflokksins Hlynur Jóhannesson og einmitt þau eru einu núverandi bæjarfulltrúarnir sem gefa kost á sér í oddvitasæti fyrir þessar kosningar. Yfirskrift fundarins var Akureyri íþróttabær? Staðan og framtíðin.

Miklar og góðar umræður sköpuðust í framhaldi af framsögum þeirra Hildu Jönu og Hlyns og sannarlega er málaflokkur mikilvægur í flóru bæjarins og miklar skoðanir og líka tilfinningar sem ráða för þegar um þetta er rætt.

Fram kom hjá bæði Hildi Jönu og Hlyn að Akureyrarbær er að reka stórt og mikið íþróttastarf og vilji bæjarstjórnar Akureyrar á hverjum tíma er sannarlega að gera það vel, þótt skiptar skoðanir séu að sjálfsögðu um hin ýmsu áherslumál á hverjum tíma, og ekki kannski alltaf sanngjarnt hvernig um þann málaflokk er talað og samanburður við stór- Reykjavíkursvæðið ekki sanngjarn á stundum.

Töluvert var rætt í dag um svokallaða uppbyggingarskýrslu íþróttamannvirkja og kallað var eftir afstöðu framboðanna sem voru í panel hvort þau styddu það plagg óbreytt.

Nokkrar umræður sköpuðust í framhaldinu um íþróttahús norðan Glerár sem og framtíðaruppbyggingu á KA og Þórssvæðunum m.a.

Fundurinn var málefnalegur og góður og milli 40 og 50 manns gæddu sér á góðri súpu frá Greifanum yfir umræðunni sem fram fór í kjölfarið.

Samantekið.

Góður fundur og gefur góð fyrirheit um þá tvo stjórnmála-súpufundi Þórs og Greifans sem eftir eru fram að sveitarstjórnarkosningum og verður spennandi að sjá og heyra hvernig hin framboðin leggja fram sín mál.

Íþróttafélagið Þór vill þakka Hildi Jönu og Hlyn kærlega fyrir komuna og góða og skilmerkilega framsögu.

Viðar Sigurjónsson okkar besti fundarstjóri hélt um stjórnvölinn á fundinum sem honum einum er lagið og hafi hann þakkir fyrir.

Næsti súpufundur Þórs og Greifans verður föstudaginn 22 apríl en þar mæta í panel fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Pírata og Vinstri grænna.