Handbolti: Tíu marka tap hjá KA/Þór

KA/Þór mætti liði Fram í Olísdeild kvenna í dag. Gestirnir hirtu bæði stigin.

Okkar konum hefur gengið heldur brösuglega undanfarnar vikur, aðeins fimm stig komin í sarpinn og ekkert bæst við síðan í lok október þegar þær unnu tvo leiki í röð með viku millibili, fyrst Aftureldingu heima og svo frækinn útisigur á liði Fram. Það voru einmitt Framkonur sem mættu í KA-heimilið í dag og fóru heim með stigin eftir tíu marka sigur.

Leikurinn var nokkuð jafn fyrsta stundarfjórðunginn og staðan 5-5 þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður. Þá komu sex mörk í röð frá gestunum og staðan orðin 5-11. KA/Þór náði að minnka muninn niður í þrjú mörk í lok fyrri hálfleiksins, staðan 9-12 í leikhléinu. Fram hafði áfram yfirhöndina í seinni hálfleiknum og munurinn aldrei minni en þrjú mörk, en gestirnir bættu svo í undir lokin, náðu 12 marka forystu á tímabili, en niðurstaðan að lokum tíu marka sigur gestanna.

KA/Þór - Fram 18-28 (9-12)

Tölurnar úr leiknum

KA/Þór
Mörk: Nathalia Soares Baliana 7, Lydía Gunnþórsdóttir 4, Aþena Sif Einvarðsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Rafaele Nascimento Fraga 2, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 14 (33,3%).
Refsingar: 2 mínútur

Fram
Mörk: Harpa María Friðgeirsdóttir 10, Þórey Rósa Stefánsdóttir 7, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 4, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 4, Berglind Þorsteinsdóttir 1, Svala Júlía Gunnarsdóttir 1, Valgerður Arnalds 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 7 (41,2%), Ingunn María Brynjarsdóttir 4 (33,3%).
Refsingar: 0 mínútur

Ítarleg tölfræði (hbstatz.is)
Leikskýrslan (hsi.is)

Afturelding og Stjarnan töpuðu einnig sínum leikjum í dag og staðan í neðri hluta deildarinnar því óbreytt, Afturelding með sex stig og Stjarnan og KA/Þór með fimm stig. Öll liðin hafa spilað 14 leiki. KA/Þór tekur næst á móti ÍBV.

Næst

  • Mót: Olísdeild kvenna
  • Leikur: KA/Þór - ÍBV
  • Staður: KA-heimili
  • Dagur: Laugardagur 27. janúar
  • Tími: 15:00