Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Herbert Bárður Jónsson og Páll Jóhannesson veittu í gær viðtöku heiðursviðurkenningu fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrar.
Kjöri íþróttafólks Akureyrar 2022 var lýst í gær og að venju voru þá einnig veittar heiðursviðurkenningar fræðslu- og lýðheilsuráðs. Þar voru tveir af okkar mönnum á meðal þeirra sem hlutu heiðursviðurkenningu, Herbert Bárður Jónsson, heiðursfélagi í Þór, og Páll Jóhannesson, sem meðal annars hafði lengi umsjón með heimasíðu Þórs.
Við athöfnina í gær voru eftirfarandi textar lesnir upp til kynningar á þessum heiðursmönnum.
Herbert Bárður Jónsson (Hebbi) er fæddur 13. desember 1936 og hefur frá unga aldri sett mark sitt á starf Íþróttafélagsins Þórs. Rétt fyrir árið 1960 var Herbert kjörinn í aðalstjórn Þórs og sat þar í mörg ár, m.a. sem hægri hönd formanns til árisins 1980. Í stjórn Þórs vann hann m.a. ötullega að málefnum körfuboltans og handboltans hjá félaginu þegar þessar greinar voru að slíta barnsskónum í félaginu.
Eftir að Herbert sagði sig frá stjórnarstörfum var hann áfram fyrirferðarmikill í störfum fyrir félagið, t.d. sá hann um öfluga getraunaþjónustu félagsins í mörg ár.
Herbert er enn í dag nánast daglegur gestur í Hamri félagsheimili Þórs þar sem hann leggur sitt að mörkum til félagsins.
Fyrir óteljandi verkefni, hjarta og sál í þágu íþróttahreyfingarinnar á Akureyri og Íþróttafélagsins Þórs hefur Herbert verið veitt gullmerki Þórs, gullmerki ÍSÍ, silfurmerki ÍBA og heiðursfélaganafnbót Þórs.
Páll Jóhannesson (Palli Jó) er fæddur 13. febrúar 1958. Páll lét strax til sín taka sem foreldri í starfi Þórs og spurði ekki hvað félagið gæti gert fyrir hann, heldur hvað hann gæti gert fyrir félagið. Páll sat í stjórn félagsins í mörg ár og á tímabili ritari aðalstjórnar Þórs. Páll var ritstjóri heimasíðu Þórs í mörg ár og sá um viðtöl, ljósmyndir, umfjallanir í öllum greinum og aldursflokkum og gerði heimasíðu Þórs að mjög lifandi og öflugum miðli.
Fáir félagsmenn búa yfir eins mikilli þekkingu og vitneskju úr sögu Íþróttafélagsins Þórs og Páll, enda er saga félagsins honum hugleikin og er til dæmis ljósmyndasafn hans úr félagsstarfi Þórs dýrmæt heimild um sögu sem var og sögu sem enn er verið að segja. Páll er enn að vinna að verkefnum fyrir félagið sitt og fyrir óeigingjarnt starf í þágu Þórs hefur Páll hlotið gullmerki félagsins.
Herbert Bárður Jónsson og Páll Jóhannesson með heiðursviðurkenningarnar. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.