Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Aron Einar Gunnarsson spilaði 30 mínútur í leik dagsins við Njarðvík í Lengjudeild karla. Var þetta hans fyrsti leikur fyrir Þór síðan í júní mánuði árið 2006. Í millibilinu má segja að hann hafi skrifað söguna ásamt félögum sínum í landsliðinu ásamt því að eiga frábæran atvinnumannaferil og spilað m.a. í ensku úrvalsdeildinni. En aftur að leiknum.
Okkar menn byrjuðu mun betur og áttu að vera komnir í 2-0 forystu eftir fyrstu fimm mínúturnar en tókst á ótrúlegan hátt að klúðra tveimur frábærum færum. Stuttu seinna fengu Njarðvíkingar frábært færi en Aron Birkir, sem var frábær í markinu í dag, varði mjög vel í stöng og þaðan fór boltinn útaf í horn.
Njarðvíkingar voruð ívið sterkari út hálfleikinn eftir sterka byrjun okkar drengja sem þó vörðust vel og var tilfinning aldrei sú að Njarðvík myndi skora. Það hins vegar breyttist snögglega í seinni hálfleik þegar þeir skoruðu tvö mörk á fyrstu sjö mínútunum, galin byrjun á hálfleiknum og fyrra markið sér í lagi klaufalegt.
En í stöðunni 2-0 kom áðurnefndur Aron Einar inn á völlinn og umbreytingin á einu fótboltaliði var hreint ótrúleg. Þór fékk víti þegar brotið var á Kristófer Kristjánssyni innan teigs og úr spyrnunni skoraði Birkir Heimisson. Um 12 mínútum fyrir leikslok jafnaði svo Vilhem Ottó leikinn með skallamarki eftir frábæra fyrirgjöf Arons Einars.
Nafni hans Aron Birkir í markinu varði svo tvisvar stórkostlega úr ákjósanlegum færum Njarðvíkur áður en boltinn lak næstum inn í mark Njarðvíkur í blálok leiksins. Meira var hins vegar ekki skorað og endaði leikurinn 2-2 sem mætti bara teljast nokkuð sanngjarnt þegar á heildina er litið.
Næsti leikur Þórsliðsins er á miðvikudag við Grindavík í Reykjavík, nánar tiltekið í Safamýri (fyrrum Fram-svæðið).