Jón Bjarnason, úrsmiður - minningarorð

Blessuð sé minning Jóns Bjarnasonar
Blessuð sé minning Jóns Bjarnasonar

Jón Bjarnason úrsmiður. Minningar orð og kveðja frá Íþróttafélaginu Þór.

Í dag blaktir fáni við hálfa stöng í Hamri vegna útfarar Jóns Bjarnasonar, úrsmiðs frá Akureyrarkirkju í dag.  Jón lést mánudaginn 24. júní s.l á 89 aldursári.

Þegar rýnt er í sögu Íþróttafélagsins Þórs og stigið er niður fæti um miðbik síðustu aldar, kemur nafn Jóns Bjarnasonar fyrir í umfjöllun um skíðakeppni 13 til 15 ára og þar keppti Jón undir merkjum Íþróttafélagsins Þórs.

Næstu ár þar á eftir ber nafn Jóns víða í umfjöllunum um skíðaíþróttir og nær hann þar oft á tíðum eftirtektaverðum árangri.

Einnig eru til heimildir um aðkomu Jóns að badminton deild Þórs sem þá var og hét, bæði þá sem keppandi sem og svo forsvarsmaður deildarinnar.

Árið 1961 er Jón kjörinn í aðalstjórn Íþróttafélagsins Þórs og situr þar sem gjaldkeri í nokkur ár. Vann Jón þau verk öll af mikilli kostgæfni og fagmennsku, en oft á þessum árum steðjaði að íþróttalífinu á Akureyri mikið auraleysi og oft var hart í ári, og svo sannarlega hefur það ekki verið öfundsverk að sitja sem gjaldkeri á þessum árum.

Af þessu má sjá að Jón Bjarnason hefur markað merk spor í sögu Íþróttafélagsins Þórs og það framlag hans þökkum við Þórsarar nú, þá sögu munum við geyma og varðveita um aldur og æfi.

Jón fylgdi Íþróttafélaginu Þór lengi vel að málum, var öflugur liðsmaður og í raun og sann sagði hann sig aldrei úr félaginu, en eftir að Bjarni sonur Jóns fór að stunda knattspyrnu með KA studdi hann þá stráka á suðurbrekkunni með ráðum og dáð.

Að leiðarlokum þakkar Íþróttafélagið Þór látnum félaga, Jóni Bjarnasyni samfylgdina og sendir eftirlifandi eiginkonu hans, Sigrúnu Helgadóttur, börnum þeirra sem og öllum öðrum ástvinum sínar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Jóns Bjarnasonar.