Körfubolti: Njarðvíkingar gáfu engin grið

Eva Wium Elíasdóttir sækir að körfunni í fyrri leik Þórs og Njarðvíkur í haust. Emilie Hesseldal er …
Eva Wium Elíasdóttir sækir að körfunni í fyrri leik Þórs og Njarðvíkur í haust. Emilie Hesseldal er til varnar. Mynd: Páll Jóhannesson.

Stelpurnar okkar í körfuboltanum mættu engri miskunn hjá Njarðvíkingum þegar liðin mættust í 14. umferð Subway-deildarinnar. Niðurstaðan varð 27 stiga sigur Njarðvíkinga og Þórsliðið áfram í 5. sæti deildarinnar.

Leikurinn var jafn í upphafi og skiptust liðin á að leiða á upphafsmínútunum. Njarðvíkingar áttu góðan lokakafla í fyrsta leikhlutanum og náðu 12 stiga forskoti. Þórsstelpurnar unnu annan leikhlutann með fjögurra stiga mun og staðan 39-31 eftir fyrri hálfleikinn. Njarðvíkingar héldu áfram öruggri forystu allan seinni hálfleikinn og bættu í þegar leið á þriðja leikhlutann og undir lok þess fjórða.

Eva Wium Elíasdóttir var langatkvæðamest í Þórsliðinu, skoraði 25 stig, var með 66% skotnýtingu, en næstar komu Maddie Sutton með 12 stig, Lore Devos með níu og Hrefna Ottósdóttir átta. 

Njarðvík - Þór (26-14) (13-17) 39-31 (23-16) (22-10) 84-57

Á myndinni má sjá helstu tölfræðiþættina og eins og sjá má voru Njarðvíkingar mun öflugri í frákastabaráttunni, tóku 61 frákast á móti 32 hjá okkar stelpum. Fráköstin hafa einmitt verið eitt af vopnum Þórsara með Maddie Sutton í fararbroddi, en Njarðvíkingar hafa einn öflugasta leikmann og frákastara deildarinnar, Emilie Hesseldal, í sínum röðum. Hún tók 19 fráköst og Ena Viso 16 í liði heimakvenna, en Maddie Sutton og Lore Devos náðu samtals 19 fráköstum. Smellið á myndina til að skoða ítarlegri tölfræði leiksins.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Njarðvík: Emilie Hesseldal 20/19/7, Ena Viso 20/16/6, Jana Falsdóttir 10/6/5, H Agnarsdóttir 10/6, L Ásgeirsdóttir 9/4/2, A Strize 8/4/1, K Magnúsdóttir 5/0/2, H Jónsdóttir 2 stig, S Logadóttir 0/2/0.

Þór: Eva Wium Elíasdóttir 25/3/7, Maddie Sutton 12/13/2, Lore Devos 9/6/4, Hrefna Ottósdóttir 8/0/1, Jovanka Ljubetic 2/2/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 1/3/1, Karen Lind Helgadóttir 0/2/0.

Þrátt fyrir tapið eru okkar konur áfram í 5. sætinu, hafa unnið sjö leiki af 13. Næsti leikur átti að vera heimaleikur gegn Breiðabliki, en af honum verður ekki þar sem Blikar ákváðu skömmu fyrir jól að draga lið sitt úr keppni. Leikurinn í gær var sá fyrsti hjá liðinu frá 12. desember og nú tekur aftur við tæplega tveggja vikna bið eftir næsta leik, sem er útileikur gegn Haukum í Hafnarfirði þriðjudaginn 16. janúar.