Körfubolti: Tap í skrykkjóttum og skrýtnum leik

Jason Gigliotti var öflugur í kvöld eins og oftast áður, skoraði 20 stig og tók 19 fráköst. Mynd: Pá…
Jason Gigliotti var öflugur í kvöld eins og oftast áður, skoraði 20 stig og tók 19 fráköst. Mynd: Páll Jóhannesson.

Níu stiga tap varð niðurstaðan í viðureign Þórs og Fjölnis í 1. deild karla í körfuknattleik í kvöld. 

Óhætt er að segja að leikur Þórsara hafi verið skrykkjóttur í kvöld. Gestirnir úr Grafarvoginum byrjuðu leikinn rúmlega þremur mínútum á undan okkar mönnum, ekki bókstaflega heldur voru það þeir sem sáu um að skora fyrstu mínúturnar á meðan skotin duttu ekki niður hjá Þórsurum. Staðan orðin 0-10 eftir rúmar þrjár mínútur. Þrátt fyrir þetta náðu Þórsarar að jafna í 18-18 í fyrsta leikhlutanum, en gestirnir leiddu með einu stigi að honum loknum. Aftur kom slæmur kafli í upphafi annars leikhluta, en Þórsarar hristu það af sér og aðeins var tveggja stiga munur gestunum í hag eftir fyrri hálfleikinn. 

Annar leikhlutinn og raunar leikurinn lengst af einkenndist af deilum við dómarana og þótti báðum liðum ákvarðanir oft og tíðum orka tvímælis. 

Þórsarar hófu þriðja leikhluta einnig illa og munurinn orðinn 13 stig þegar hann var mestur undir lok leikhlutans, en níu stig þegar honum lauk. Þórsarar náðu góðu áhlaupi í upphafi fjórða leikhluta og munurinn aðeins eitt stig þegar tæpar sjö mínútur voru til leiksloka. Það dugði þó ekki, jafnvel þótt þessi góða byrjun hafi kveikt neista í liðinu og stuðningsfólki, því Fjölnismenn sögðu hingað og ekki lengra, náðu aftur vopnum sínum og juku muninn, héldu út og kláruðu leikinn með níu stiga sigri.

Þór - Fjölnir (21-22) (27-28) 48-50 (23-30) (20-20) 91-100


Hver höndin upp á móti annarri. Frákastabaráttan er oft hörð og hér á Jason Gigliotti í höggi við Lewis Diankulu og Kristófer Gíslason úr liði Fjölnis. Þórsarar höfðu örlítið betur í frákastabaráttunni, tóku 39 á móti 37 fráköstum gestanna. Smellið á myndina til að opna albúm með fleiri myndum. Mynd: Páll Jóhannesson.

Harrison Butler og Reynir Róbertsson voru stigahæstir Þórsara með 26 og 23 stig og Jason Gigliotti næstur á eftir þeim með 20 stig, en tók að auki 19 fráköst. Myndini sýnir nokkra tölfræðiþætti leiksins, en ítarlega tölfræði má skoða á vef KKÍ með því að smella á myndina. 

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Harrison Butler 26/2/2, Reynir Róbertsson 23/3/3, Jason Gigliotti 20/19/5, Baldur Örn Jóhannesson 12/6/0, Smári Jónsson 7/3/3, Michael Walcott 3/0/1, Páll Nóel Hjálmarson 0/1/1, Andri Már Jóhannesson 0/1/0.

Fjölnir: Viktor Steffensen 27/5/9, Daníel Ágúst Halldórsson 27/3/4, Kennedy Clement 15/2/0, Kristófer Gíslason 12/7/4, Lewis Diankulu 10/4/3, Brynjar Gunnarsson 5/1/0, Ísak Baldursson 2/2/0, William Thompson 2/7/1, Rafn Kristján Kristjánsson 0/1/0, Fannar Elí Hafþórsson 0/1/0.

Þórsarar eru áfram í 8. sæti deildarinnar eftir tapið í dag, hafa unnið fimm leiki af 14. Fjölnir hefur unnið 12 leiki af 14 og er í toppbaráttunni með KR og ÍR. Þórsarar mæta Selfyssingum á útivelli í næstu umferð.

Næst

  • Mót: 1. deild karla
  • Leikur: Selfoss - Þór
  • Staður: Vallaskóli á Selfossi
  • Dagur: Föstudagur 2. febrúar
  • Tími: 19:15