Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Tuttugu keppendur frá píludeild Þórs tóku um liðna helgi þátt í Íslandsmótinu í pílukasti, 501. Enginn keppendanna frá Þór náði að komast í titilbaráttuna, en þó tveir í 16 manna úrslit í karlaflokki (af 116) og ein í átta manna úrslit í kvenaflokki af 16).
Örugglega hefðu einhverjir af okkar keppendum viljað ná lengra en þeir gerðu, en þar er við ramman reip að draga þar sem keppendum hefur fjölgað mjög og margir sterkir og samkeppnin hefur harðnað mjög á örfáum árum. Sunna Valdimarsdóttir komst í átta manna úrslit í kvennaflokki og þeir Sigurður Fannar Stefánsson og Viðar Valdimarsson í 16 manna úrslit í karlaflokki. Fimm af 16 keppendum frá píludeild Þórs í karlaflokki komust lengra en í 64ra manna úrslit.
Öll úrslit á mótinu má finna á vefnum dartconnect.com:
Sigurður Fannar Stefansson vann Knút Bjarnason, 4-2, í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar, síðan Herbert Viðarsson, 4-3, í 64ra manna úrslitum og Guðjón Hauksson 4-2 í 32ja manna, en beið lægri hlut, 1-5, fyrir Haraldi Birgissyni í 16 manna úrslitum.
Viðar Valdimarsson sigraði Harald Pál Þórisson, 4-0, í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar. Því næst vann hann Jón Odd Hjálmtýsson í 64ra manna úrslitum, 4-2, og svo Þórsarann Jón Svavar Árnason, 4-0, í 32ja manna. Það var svo landsliðsþjálfarinn Pétur Rúðrik Guðmundsson sem sló Viðar út í 16 manna úrslitum, 5-2.
Valþór Atli Birgisson vann Arnar Má Elíasson, 4-0, og síðan Davíð Örn Oddsson, formann píludeildar Þórs, 4-1 í 64ra manna úrslitum, en beið lægri hlut, 1-4, í 32ja manna úrslitum á móti Alexander Veigari Þorvaldssyni, 1-4. Alexander Veigar fór alla leið í úrslitaleikinn þar sem hann tapaði, 5-7, fyrir Matthíasi Erni Friðrikssyni, sem unnið hefur með Þórsurum sem þjálfari píludeildarinnr.
Óskar Jónasson vann Daniel Chudowolski, 4-2, í fyrstu umferð útsláttarins, síðan kom 4-1 sigur gegn Birni Steinari Brynjólfssyni í 64ra manna úrslitum, en loks 1-4 tap í 32ja manna úrslitum.
Jón Svavar Árnason vann Hörð Inga Kristjánsson, 4-3, í fyrstu umferð útsláttarins, næst kom sigur gegn Karli Helga Jónssyni, 4-2, í 64ra manna úrslitum, en loks 0-4 tap fyrir Viðari Valdimarssyni í 32ja manna.
Fimm keppendur frá píludeild Þórs, þeir Davíð Örn Oddsson, Friðrik Gunnarsson, Halldór Ingvar Guðmundsson, Jóhannes Jónsson og Sverrir Freyr Jónsson unnu sínar viðureignir í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar, en féllu úr leik í 64ra manna úrslitum. Þeir Andri Geir Viðarsson, Aron Stefánsson, Björn Helgi Ingimarsson, Hörður Ingi Kristjánsson, Michael Reinhold og Snæbjörn Ingi Þorbjörnsson féllu allir úr keppni í fyrstu umferð útsláttarins.
Sunna Valdimarsdóttir var sú eina úr röðum Þórs sem komst áfram í átta manna úrslit. Hún sigraði Lovísu Hilmarsdóttur, 4-1, í 16 manna úrslitum, en beið 0-5 ósigur fyrir verðandi Íslandsmeistara, Brynju Herborgu, í átta manna úrslitum.
Dóra Valgerður Óskarsdóttir, Kolbrún Gígja Einarsdóttir og Ólöf Heiða Óskarsdóttir töpuðu allar sínum viðureignum í 16 manna úrslitum.