Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þórsurum tókst ekki að koma sér úr fallbaráttunni þegar þeir mættu Gróttu á Seltjarnarnesi í næstsíðustu umferð Lengjudeildarinnar í dag. Heimamenn höfðu eins marks sigur og höfðu sætaskipti við Þór.
Eina mark leiksins kom snemma leiks þegar Þórsarar fengu dæmda á sig vítaspyrnu strax á 8. mínútu sem Thomas Johannessen skoraði úr. Grótta með eins marks forystu eftir fyrri hálfleikinn. Þrátt fyrir ákafar tilraunir tókst Þórsurum ekki að jafna leikinn, en léku þó einum fleiri síðustu tuttugu mínúturnar eða svo eftir að Patrik Orri Pétursson hafði fengið sitt annað gula spjald.
Þegar ein umferð er eftir af Lengjudeildinni er Þór í 8. sæti með 24 stig, einu stigi meira en liðin í 9.-11. sætinu, sem eru Þróttur, Njarðvík og Selfoss.
Það verður því mikil spenna í lokaumferðinni þegar Þór, Þróttur, Njarðvík og Selfoss berjast við að halda sér í deildinni, en klárt að eitt þessara fjögurra liða fellur í 2. deild. Leikir þessara liða í lokaumferðinni:
Þór - Grindavík
Grindvíkingar þegar búnir að tryggja sæti sitt í deildinni.
Þróttur - Afturelding
Afturelding enn í baráttu við Skagamenn um efsta sæti deildarinnar.
Fjölnir - Njarðvík
Selfoss - Vestri
Fjölnir er í 3. sæti og verður þar nema að það er smá tölfræðilegur möguleiki á að liðið hafi sætaskipti við Vestra, sem er í 4. sæti. Fjölnir og Vestri mætast í umspilinu, alveg sama hvernig leikir lokaumferðarinnar fara.
Síðasta umferð Lengjudeildarinnar verður laugardaginn 16. september og hefjast allir leikirnir kl. 14. Þórsarar taka þá á móti Grindvíkingum. Í leikhléi á laugardaginn verður styrkafhending úr Minningarsjóði Guðmundar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi formanns Þórs. Auk þess verður léttur lukkuleikur þar sem gestum gefst kostur á að setja nafnið sitt í pott í upphafi leiks og síðan dregið um veglega vinninga í leikhléinu.
Upptaka af leiknum er á YouTube-síðu Lengjudeildarinnar og hér að neðan er hægt að fara beint inn á vítaspyrnudóminn og markið.