Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þrátt fyrir að hafa náð þriggja marka forystu og skorað fjögur mörk máttu stelpurnar í Þór/KA sætta sig við að halda heim úr Vestmannaeyjum án stiga.
Öfugt við síðasta leik þegar Þór/KA lenti 3-0 undir gegn Þrótti á útivelli byrjuðu stelpurnar leikinn gegn ÍBV í gær af krafti og höfðu skorað þrjú mörk eftir fyrsta hálftímann. Fyrst skoraði Sandra María Jessen tvisvar, eftir sendingu frá Vigdísi Eddu Friðriksdóttur í fyrra skiptið og Sögu Líf Sigurðardóttur í seinna skiptið. Tiffany McCarty bætti svo við þriðja markinu þegar hún plataði varnarmenn ÍBV inni í teig og skoraði.
ÍBV náði hins vegar að skora tvisvar fyrir leikhlé, fyrra markið reyndar eftir vafasama aukaspyrnu. Seinna markið var svo eins og blaut tuska í andlitið, síðasta spyrna hálfleiksins.
Þriggja marka forysta komin niður í eitt mark. Fljótlega í fyrri hálfleik náði ÍBV svo að jafna, en aftur náði Þór/KA forystu, þegar Tiffany McCarty skoraði fyrir utan teig.
Aftur náði ÍBV að jafna og gott betur því á lokamínútunum skoruðu þær fimmta markið og hirtu þannig öll stigin. Það var reyndar með ólíkindum að það mark skyldi fá að standa því í aðdraganda þess handlék leikmaður ÍBV boltann í baráttu á miðjunni þannig að hún náði síðan valdi á boltanum og kom honum áfram, sem síðan leiddi til marksins. Rándýr mistök sem verða til þess að liðið fær á sig mark.
Þór/KA var leikmanni færri á lokakaflanum eftir að Saga Líf hafði fengið rautt spjald.
Eftir tapið í Eyjum hefur Þór/KA sex stig að loknum sex leikjum og situr í 8. sætinu.