Uppfærð frétt: Uppbygging á Þórssvæðinu ekki á döfinni ?

Í gær fór fram fyrsti fundur með oddvitum þeirra flokka sem bjóða sig fram til bæjarstjórnar og voru það þau Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingar og Hlynur Jóhannsson, oddviti Miðflokksins sem riðu á vaðið. Við viljum nota tækifærið og þakka þeim kærlega fyrir komuna.

Á fundum súpufundum Þórs spyr félagið öll framboð sömu tveggja spurninga og birtir svo úrdrátt úr svörum þeirra daginn eftir hér á heimasíðunni.

Spurningarnar sem spurt er, eru eftirfarandi:

  1. Á kjörtímabilinu var skýrsla á vegum Akureyrarbæjar um forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja samþykkt í bæjarstjórn. Samkvæmt þeirri skýrslu má segja ólíklegt að framkvæmt verði á Þórssvæðinu næstu 8-12 árin. Munuð þið frambjóðendur sem hér sitjið, styðja að næsta bæjarstjórn haldi áfram að vinna samkvæmt þessari skýrslu?

     

  2. Á næstu árum munu rísa ný íbúðahverfi, Holtahverfi og Móahverfi, á þjónustusvæði Þórs. Fyrirséð er að börnum og fólki á öllum aldri muni fjölga mjög á svæðinu á næstu árum. Viðurkennið þið þörf félagsins fyrir uppbyggingu íþróttahúss og nýs gervigras vallar snemma á næsta kjörtímabili?

Svör við spurningu 1

Hilda Jana sagði að hún hafi verið í bæjarstjórn er uppbyggingaskýrslan var samþykkt og hún sjái ekki annað fyrir sér en að staðið verði við uppbyggingarskýrsluna og þá röð mannvirkja sem þar eru sett fram.

Hlynur svaraði spurningunni á þann hátt að framkvæmdir á Þórssvæðinu ættu að koma á undan yfirbyggðri sundlaug en fór ekki nánar í sín svör en það.

Svör við spurningu 2

Hilda Jana viðurkenndi þörf Þórs á framkvæmdum við Íþróttahús, sér í lagi ef stefnan væri áfram að hafa tvö handboltalið í bænum. Hún tók hins vegar ekki afstöðu til knattspyrnumannvirkis á svæðinu en talaði um gervigrasskipti í Boganum sem félagið leggur áherslu á að er ekki nýframkvæmd fyrir Þór heldur viðhald.

Vegna þessarar fréttar vildi Hilda Jana koma á framfæri eftirfarandi: ,,ég tel rétt að koma því á framfæri að það er ekki rétt sem þar kemur fram að ég hafi ekki tekið afstöðu til knattspyrnumannvirkis eða gervigrass. Ég sagði annars vegar að mér litist mjög vel á uppbyggingarhugmyndir Þórs um framtíðarskipulag og hins vegar að gervigrasið í Boganum ætti ávallt að vera í lagi, hvort sem það varðar viðhald eða endurnýjun þess eftir þörfum. Þar að auki taldi ég mikilvægt að nýta íþróttamannvirki sem best og að ég sjái ekki annað en að þörf verði fyrir íþróttahúsi á ykkar svæði í samræmi við ykkar tillögur, sem ég eins og áður sagði að mér litist vel á."

Innsk.blm: Fréttaritari Thorsport vill koma á framfæri afsökunarbeiðni til Hildu Jönu að ekki hafi verið rétt eftir henni haft. Um leið fögnum við því að henni lýtist vel á hugmyndir félagsins um uppbyggingu. Vonum við að leiðréttingunni sé hér með skilmerkilega komið á framfæri.

Hlynur sagði að hann sjái ekki fyrir sér rísa íþróttahús á Þórssvæðinu. Ástæðuna sagði hann vera að sameina ætti handboltann í eitt lið (aftur er hér átt við meistarflokk karla) og þá myndi ekki teljast þörf fyrir slíkt íþróttahús hjá Þór. Hann talaði einnig um það glataða tækifæri sem það hefði verið að byggja ekki Síðuskóla upp með áhorfendaaðstöðu. Loks nefndi hann erfiðleika meistaraflokks Þórs í karlakörfu í þessu samhengi. Hlynur ræddi ekki sérstaklega um uppbyggingu knattspyrnumannvirkja.

Hlynur Jóhannson hafði einnig samband eftir að þessi frétt fór í loftið og vildi koma því á framfæri að hann telji að forsenda fyrir skjótri uppbyggingu mannvirkja á svæðinu sé sala íbúðarhúsnæðis í tengslum við mannvirkin eða á þeim stöðum innan félagssvæða sem gáfulegt sé að nýta undir slíkt. Einnig að hann telji að horfa verði til framtíðar í íþróttamálum bæjarins og þar sé lykilatriði að gott samtal eigi sér samstarf milli stóru félaganna tveggja og forsvarsmanna bæjarins í sameiningu.

Á fundinum er einnig sett fram eftirfarandi fullyrðing sem oddvitum allra framboða er sýnd:

Fullyrðing: Íþróttafélagið Þór er eitt fárra félaga ef ekki hreinlega eina félagið á Íslandi sem bíður upp á hand-, fót- og körfubolta sem ekki hefur íþróttahús á sínu félagssvæði. Allt félagsstarf hjá Þór líður mjög fyrir að ekki er íþróttahús á svæðinu og er starfsemin dreifð vítt og breytt um bæinn. Einnig er knattspyrnuaðstaða félagsins löngu úr sér gengin. Má þar nefna illa farin æfingasvæði auk þess sem litið er á aðalvöll félagsins sem frjálsíþróttavöll sem ekki megi leggja gervigrasi. Gervigras hins vegar er löngu viðurkennt að sé eina leiðin til framtíðar í norðlenskri knattspyrnu.

 

Hilda Jana og Hlynur í pontu í gær.