Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Lokahóf yngri flokka Þórs var haldið í Garðinum hans Gústa í dag, fimmtudaginn 9. júní.
Daníel Andri Halldórsson, yfirþjálfari yngri flokka Þórs, gerði þar upp tímabilið hjá öllum aldursflokkum og veitt voru verðlaun. Krakkar á aldrinum fjögurra til ellefu ára fengu verðlaunapeninga fyrir frábæra frammistöðu á sínum mótum og dugnað á æfingum. Í 7. flokki og upp úr voru veitt einstaklingsverðlaun fyrir mestu framfarir, besta liðsfélagann og einnig leikmann ársins.
Myndir tók Palli Jó en þær má skoða HÉR. Fyrir neðan má lesa sig til um verðlaunahafa og stutta fróðleiksmola um árangur flokkanna á keppnistímabilinu.
4-7 ára fóru á þrjú mót þetta tímabil undir stjórn Evu Wium Elíasdóttur ásamt nokkrum ungum og efnilegum þjálfurum. Hópurinn fóru t.a.m. til Keflavíkur og á Sauðárkrók og stóðu sig gríðarlega vel.
8-9 ára léku á fjórum mótum, þar á meðal á Íslandsmóti 10 ára á Akureyri. Bjarki Ásbjarnarson þjálfaði hópinn en undir lok tímabilsins tók Daníel Andri við og honum til halds og trausts var hinn ungi og efnilegi Dagur Snær.
10-11 ára drengir enduðu tímabilið með 32 skráða leikmenn og var fjölmennasti hópur Þórs. Þrátt fyrir þrengsli í íþróttahúsinu þá tókst strákunum og þjálfurum þeirra, Bjarka Oddssyni og Fjólu Eiríksdóttur, að fara með lið í A-riðil í bæði 10 ára hóp og 11 ára hóp og er það gríðarlega flottur árangur.
10-11 ára stúlkur hófu árið með núll skráða leikmenn en enduðu með tíu stykki! Stelpurnar tóku þátt á einu Íslandsmóti og stóðu sig frábærlega í öllum sínum leikjum undir stjórn Kristínar Maríu Snorradóttur.
7. flokkur drengja hóf tímabilið með eitt skráð keppnislið og u.þ.b. 10 stráka að æfa en enduðu tímabilið með þrjú lið og 28 stráka. Öll þrjú keppnislið stóðu sig frábærlega undir stjórn þjálfara, Gumma Aðalsteins.
Leikmaður ársins - Pétur Nikulás Cariglia
Besti liðsmaður - Arnór Valur Ragnarsson
Mestu framfarir - Bjartur Þór Arnarsson
8. flokkur drengja tefldu fram tveimur liðum í ár undir stjórn Kolbeins Fannars Gíslasonar. Bæði lið náðu fínasta árangri og á hópurinn tvo fulltrúa í U14 hópi, í undirbúningi fyrir U15 landsliðshópa, þá Daníel Davíðsson og Dag Vilhelm Ragnarsson.
Leikmaður ársins - Daníel Davíðsson
Besti liðsmaður - Heiðar Húni Jónsson
Mestu framfarir - Hörður Reykjalín Jóhannesson
Eftir áramót skráðum við til liðs 8. flokk stúlkna á Íslandsmótinu eftir langa pásu og skipaði liðið leikmenn úr bæði 7. og 8. flokki stúlkna. Karen Lind Helgadóttir var þjálfari en liðið gerði sér lítið fyrir og fór taplaust í gegnum tímabilið. Liðið átti þrjá fulltrúa í U14 hóp, þær Emmu Karólínu, Hugrúnu Birtu og Vöku Bergrúnu.
Leikmaður ársins - Emma Karólína Snæbjarnardóttir
Besti liðsmaður - Hugrún Birta Bergmannsdóttir
Mestu framfarir - María Sól Helgadóttir
9. flokkur drengja byrjaði tímabilið á góðri fjölgun líkt og flestir aðrir hópar hjá Þór en liðið gerði sér lítið fyrir og fór í úrslitaleik upp á deildarmeistaratitil sinnar deildar. Liðið þurfti að sæta tapi í framlengdum leik en fóru samt sem áður upp um deild undir stjórn þjálfara, Hlyns Freys Einarssonar.
Leikmaður ársins - Ýmir Hugh Travisson Heafield
Besti liðsmaður - Vésteinn Arnþór Garðarsson
Mestu framfarir - Pétur Áki Stefánsson
10. flokkur drengja var með tvö lið skráð á Íslandsmóti þetta tímabil og þjálfari var Daníel Andri Halldórsson. Þór B margfaldaði árangur sinn milli ára og Þór A gerðu sér lítið fyrir og urðu deildarmeistarar í 2. deild eftir sannfærandi sigur á Ármenningum í úrslitaleik.
Leikmaður ársins - Hákon Hilmir Arnarsson
Besti liðsmaður - Fannar Ingi Kristínarson
Mestu framfarir - Elvar Björn Ólafsson
Drengjaflokkur byrjaði tímabilið sitt brösulega en endaði það alveg gríðarlega vel með frábærri fjölgun og bersýnilegum árangri milli mánaða, bæði einstaklings- og liðsárangri. Strákarnir enduðu tímabilið á tveimur sigrum í röð gegn tveimur sterkum liðum, þar á meðal toppliði Njarðvíkur. Þjálfari hópsins var Elvar Steinn Traustason.
Leikmaður ársins - Alexander Smári Hauksson
Besti liðsmaður - Arngrímur Friðrik Alfreðsson
Mestu framfarir - Úlfur Travisson Heafield
Í stúlknaflokki lék breiður og flottur hópur af stelpum á öllum aldri í 2. Deild, alveg frá 13 ára og niður í 18 ára. Stelpurnar fóru taplausar í gegnum sitt tímabil og lögðu að lokum Aþenu í leik um deildarmeistaratitilinn. Stelpurnar leika næsta tímabil í efstu deild í sínum aldursflokki.
Leikmaður ársins - Eva Wium Elíasdóttir
Besti liðsmaður - Dögun Hallsdóttir
Mestu framfarir - Hrefna Logadóttir
Að lokum voru veitt verðlaunin ,,efnilegasti leikmaður yngri flokka”. Hjá strákunum var það Hákon Hilmir Arnarsson sem hlaut verðlaunin og Eva Wium Elíasdóttir í flokki stúlkna.
Unglingaráð Kkd. Þórs vill þakka öllum sem komu að starfinu á einhvern hátt. Framlag sjálfboðaliða og öflugra félagsmanna var algjörlega ómetanlegt og mun áframhaldandi samvinna hjálpa deildinni að eflast og verða enn sterkari.