„Framtíðin hefur ekki verið svona björt hjá Þór í langan tíma“

Rúnar á hliðarlínunni.
Mynd - Facebook
Rúnar á hliðarlínunni.
Mynd - Facebook

Þórsarinn Rúnar Sigtryggson hefur verið að gera það gott sem þjálfari þýska liðsins Leipzig í efstu deild karla í handbolta í Þýskalandi. Rúnar tók við liðinu í nóvember árið 2022 og hefur náð flottum árangri með liðið.

Við heyrðum í Rúnari sem líkar lífið í Þýskalandi vel. „Lífið hérna bara mjög gott, og meginlandið fer mjög vel með mann. Svo er mikið um að vera og til að mynda erum við heppnir með nágranna, þar sem RB Leipzig er hinu megin við götuna og kíkjum við reglulega á leiki hjá þeim bæði í CL og Bundesligunni, þegar það passar við okkar prógram,“ segir Rúnar og á þar við fótboltaliðið þar í borg.

Lifandi og skemmtilegt starf

Rúnar var öflugur leikmaður á sínum tíma. Hann spilaði 118 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði 105 mörk.

Þá fór hann með íslenska landsliðinu á nokkur stórmót. Hann lék á ferli sínum með Þór, Val, Víkingi, Haukum, Ciudad Real á Spáni og þýsku liðunum Wallau Massenheim, Eisenach og Göppingen.

„Ég hef ekki tíma fyrir nein plön, ég er bara í vinnunni og það vill svo til að mér líkar bara vel í þessu starfi. Þó svo að pressan og umstangið sé mikið og er alltaf að aukast með auknum áhuga Þjóðverja á handboltanum. Þá er þetta mjög lifandi og skemmtilegt, svo er hægt að pæla í einhverju öðru þegar þetta verður búið.“

Fylgist vel með gangi mála hjá Þór

Rúnar er mikill Þórsari og fylgist vel með gangi máli hjá okkar mönnum í Grill deildinni. „Mér fannst mjög gaman að sjá alla þessa stráka vera að koma til baka í klúbbinn sinn. Það er einstakt og vonandi halda þeir fyrsta sætinu út tímabilið og koma vel samstilltir upp í Olísdeildina á næsta ári. Það er ekki einfalt en Þórsarar verða núna að flykkja sér á bakvið „þetta lið” þar sem ég held að eini möguleikinn að halda þeim saman, sé með því að fara upp um deild. Því þetta eru handboltamenn sem mörg lið á Íslandi vildu gjarnan hafa í sínum röðum.“

Eru einhverjar líkur á því að við Þórsarar munum sjá þig koma heim einn daginn og taka við Þór? Jafnvel taka guttana með?

„Maður hefur lært að maður á aldrei að segja aldrei, en ég lít svo á að ég sé búinn að koma heim og gera mitt. Ég reyndi að gera mitt til þess að koma handboltanum á Akureyri í fremstu röð á Íslandi, með hjálp góðra mann varð til eitthvað sem hét Akureyri Handboltafélag. Þrátt fyrir að það hafi verið eins og að pissa upp í vindinn fyrstu árin, þá komst liðið í fremstu röð á tiltölulega stuttum tíma og framhaldið vita síðan allir sem lesa þetta.

En Þórsarar eru á góðum stað í dag og ég myndi segja að framtíðin hefi ekki verið svona björt í langan tíma. Guttarnir eru orðnir fullorðnir og taka sínar ákvarðanir sjálfir, en etv munu þeir einhverntíman spila fyrir Þór. Það er alltaf líklegra að Þórsari komi til baka og spili fyrir félagið, hafi hann/hún farið í gegnum gott félagsstarf,“ segir Rúnar að lokum.