Körfubolti: Þriggja stiga tap í furðulega kaflaskiptum leik

Kaflaskiptum leik Þórs og Sindra frá Hornafirði í 10. umferð 1. deildar karla lauk með þriggja stiga sigri gestanna. Slök frammistaða gestanna og stigalausar sex mínútur í fjórða leikhluta vekja furðu.

Þórsarar voru fljótari í gang en gestirnir, skoruðu sjö fyrstu stig leiksins áður en Hornfirðingar tóku við sér á kafla þar sem Þórsarar skoruðu tvö stig á móti 14. Munurinn þó ekki nema eitt stig eftir fyrsta leikhlutann, gestunum í vil. Annar leikhlutinn var afar slakur hjá okkar mönnum, fátt gekk upp og aðeins fimm stig skoruð á móti 20 stigum gestanna á um sjö mínútna kafla, staðan örlítið löguð undir lok leikhlutans. Nýting þriggja stiga skotanna var afleit, eitt af þrettán fóru ofan í körfuna í fyrri hálfleiknum. Gestirnir leiddu með fimmtán stigum í leikhléi.

Upphaf seinni hálfleiksins gaf fyrirheit um betri tíð hjá okkar mönnum, en á tímabili við ramman reip að draga. Þriðji leikhluti jafn þegar upp var staðið, gestirnir með einu stigi meira og munurinn því 16 stig fyrir síðasta fjórðung. Þá gerðist eitthvað furðulegt. Þórsarar skoruðu 12 stig á móti engu stigi gestanna á rétt tæpum sex mínútum í fjórða leikhluta. Fyrstu stig Sindra í leikhlutanum komu þegar þegar fjórar mínútur og tvær sekúndur voru eftir af leiknum. 

Lokakaflinn varð spennandi, gestirnir náðu aftur 11 stiga forskoti, en Þórsarar minnkuðu í þrjú stig á lokamínútunni og fengu raunar sókn og þriggja stiga skot til að jafna leikinn, en skotið geigaði og frákastið var gestanna. Niðurstaðan þriggja stiga tap í mjög svo kaflaskiptum leik. 

Þór - Sindri (19-20) (11-22) 30-45 (23-24) (20-7) 73-76

Þórsarar voru undir í frákastabaráttunni og hittu afar illa úr þriggja stiga skotunum, samtals fimm af 27. Þriggja stiga nýting gestanna þó ekki mikið skárri. Tapaðir boltar voru átta færri hjá okkar mönnum en hjá gestunum, 15 á móti 23. Slakir kaflar í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik urðu Þórsurum dýrir þegar upp var staðið.

Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Harrison Butler 27/8/3, Jason Gigliotti 20/14/1, Reynir Róbertsson 11/7/2, Smári Jónsson 11/3/0, Michael Walcott 4/2/0, Andri Már Jóhannesson 0/1/1, Róbert Orri Heiðmarsson 0/0/1.

Sindri: Milorad Sedlarevi 18/6/0, Samuel Prescott 14/11/5, Juan Luis Navarro 13/13/5, Árni Þorvarðarson 9/6/1, Eric Gonzalez Diaz 8/6/0, Lucas Antunez 6/8/8, Birgir Halldórsson 6/2/1, Luka Kralji 2/1/1.

Þórsarar eru áfram í 8. sæti deildarinnar með þrjá sigra úr tíu leikjum, en fjögur lið koma fast á hæla þeirra, Snæfell, Hrunamenn, Selfoss og Ármann, sem öll hafa unnið tvo leiki. Nú tekur við næstum mánaðar hlé á deildinni, en næsti leikur Þórs verður þann 5. janúar á nýju ári.

Úrslit leikja í 10. umferðinni:

Næst

  • Mót: 1. deild karla
  • Leikur: Skallagrímur - Þór
  • Staður: Borgarnes
  • Dagur: Föstudagur 5. janúar
  • Tími: 19:15