Ragnar og Kristján endurvöktu valið 1990

Ragnar Sverrisson, kaupmaður í JMJ, Arna Sif Ásgrímsdóttir, íþróttakona Þórs 2014, Sandor Matus, íþr…
Ragnar Sverrisson, kaupmaður í JMJ, Arna Sif Ásgrímsdóttir, íþróttakona Þórs 2014, Sandor Matus, íþróttakarl Þórs 2014, og Árni Óðinsson þáverandi formaður. Myndin var tekin þegar nýir verðlaunagripir voru afhentir í fyrsta sinn þegar val á íþróttakonu og íþróttakarli Þórs fór fram í fyrsta skipti eftir breytingu. Mynd: Páll Jóhannesson

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur val á íþróttafólki Þórs í svipaðri mynd og það er nú farið fram árlega frá árinu 1990, en þá gaf Ragnar Sverrisson, kaupmaður í JMJ, verðlaunagrip í því skyni að endurvekja þessa hefð eftir að hún hafði legið niðri í um áratug.

Þórsarar höfðu valið íþróttamann félagsins á áttunda áratugnum, en lítið farið fyrir því að sögn Ragnars. „Þetta var kannski í mýflugumynd og var ekki mikið gert með það miðað við það sem er í dag,“ sagði Ragnar þegar heimasíðuritari ræddi við hann í morgun.

Ragnar kveðst ekki alveg muna hvor það hafi verið, Björn Víkingsson eða Jónas Sigurbjörnsson, báðir skíðamenn og Íslandsmeistarar, sem var valinn íþróttamaður Þórs í kringum 1980, en um það hafi staðið nokkur styr og menn í öðrum íþróttagreinum innan félagsins ekki verið á eitt sáttir um valið. Fór svo að þetta val lagðist af og var íþróttamaður Þórs ekki valinn í tíu ár. Engu að síður voru menn úr röðum félagsins valdir íþróttamenn Akureyrar fjórum sinnum á níunda áratugnum, Haraldur Ólafsson lyftingamaður 1980 og 1981 og Halldór Ómar Áskelsson knattspyrnumaður 1984 og 1987. Á þessum árum stóð norðlenska blaðið Dagur einnig fyrir vali á íþróttamanni Norðurlands.

„Hvað er í gangi hjá okkur Þórsurum?“

Ragnar telur líklegt að á þessum tíma hafi stjórn Þórs tilnefnt íþróttamenn frá félaginu fyrir kjörið á íþróttamanni Akureyrar, án þess að formlegt val hafi farið fram á íþróttamanni Þórs. En honum og fleirum þótti miður að þetta val færi ekki fram.

„Ég hugsaði bara, hvað er í gangi hjá okkur Þórsurum,“ segir Raggi. „Þá var Flosi gullsmiður (Ólafsson) mikið í því að búa til verðlaunagripi og ég hafði horft á stóran og myndarlegan bikar í glugganum hjá honum í nokkur ár. Hann seldist ekki, var kannski of dýr. Ég var þá nýbúinn að eignast þessa búð, var með nokkur umsvif og hafði efni á að kaupa þennan bikar. Ég hugsaði bara að það væri gaman að kaupa bikarinn og koma þessu af stað aftur, sem ég gerði. Ég keypti bikarinn og kom þessu af stað aftur með vini mínum Kristjáni Kristjánssyni blaðamanni. Við bjuggum til nefndina og ákváðum að hafa þetta svona, einn maður frá hverri deild og svo framvegis. Menn innan félagsins voru uppteknir af því þá að það yrðu skiptar skoðanir um valið, en ég sagði bara að það yrði flott, þá verður bara lýðræðisleg umræða um það. Ég hef aldrei verið viðkvæmur fyrir því að einhverjir hafi aðra skoðun en ég, fannst það bara hjákátlegt ef það mættu ekki vera skiptar skoðanir um þetta,“ segir Ragnar Sverrisson, kaupmaður í JMJ og guðfaðir verðlaunanna fyrir íþróttafólk Þórs.

Valið á íþróttamanni Þórs hefur farið fram árlega frá 1990, en frá og með 2014 var gerð sú breyting að nú eru valin íþróttakarl og íþróttakona Þórs, í stað eins einstaklings áður.

Ragnar Sverrisson gaf ekki aðeins bikarinn 1990 heldur einnig nýja verðlaunagripi sem afhentir hafa verið íþróttafólki Þórs frá 2014. Hann lætur ekki þar við sitja heldur hefur hann ávallt mætt á verðlaunahátíðina hjá Þór og afhent íþróttafólki Þórs verðlaunagripinn sjálfur.

Íþróttafólk Þórs 1990-2021
Íþróttafólk Þórs - fjöldi titla eftir einstaklingum
Íþróttafólk deilda Þórs 1990-2021

Íþróttamaður Akureyrar 1979-2021 | Íþróttabandalag Akureyrar (iba.is)


Skjáskot úr Degi-Tímanum 22. janúar 1997. Þarna hafði 17 ára gamall Jóhann Þórhallsson verið valinn íþróttamaður Þórs sem skíðamaður, en hann er líklega í dag betur þekktur fyrir knattspyrnuferilinn. Raggi afhendir Jóhanni gripinn góða - og svo fylgja auðvitað nokkrar myndir af góðum Þórsurum sem voru viðstaddir athöfnina.