Stórtíðindi úr körfuboltanum - Eva og Hrefna semja

Stefán Þór og Eva eftir undirritun samningssins.
Stefán Þór og Eva eftir undirritun samningssins.

Eva Wium Elíasdóttir og Hrefna Ottósdóttir hafa endurnýjað samninga sína við körfuknattleiksdeild Þórs fyrir tímabilið 2024-2025. Evu og Hrefnu þarf ekki að kynna fyrir Þórsurum en þær hafa báðar leikið með liðinu síðast liðin þrjú tímabil, eða frá því að körfuknattleiksdeildin tefldi fram kvennaliði á ný.

Þær eiga báðan stóran þátt í velgengni liðsins undanfarin ár bæði í 1. deild og í frumraun hópsins í efstu deild á síðasta tímabili.

Á sínu fyrsta tímabili í efstu deild skilaði Eva Wium góðu framlagi á báðum endum vallarins. Eva skilaði 10,4 stigum, 4,4 fráköstum og 3,9 stoðsendingum að meðaltali í leik í Subway-deildininni síðasta vetur. Einnig var hún lykilleikmaður U20 landsliðsins í sumar sem tók þátt á Norðurlandamóti í Svíþjóð og Evrópumóti í Búlgaríu. Eva er einnig í æfingahóp A-landsliðsins í sumar.

Hrefna Ottósdóttir hóf feril sinn með Þór Akureyri tímabilið 2014-2015 en þetta verður hennar níunda tímabil með uppeldisfélagi sínu! Á fyrsta ári Þórs í efstu deild síðasta vetur skilaði að meðalatli Hrefna 9,7 stigum, 3,4 fráköstum og var ein af allra bestu þriggja stiga skyttum landsins með 33% nýtingu. Þessi frábæra tölfræði fór ekki framhjá landsliðsþjálfara A-landsliðsins sem valdi Hrefnu í æfingahóp landsliðsins núna snemmsumars 

Á myndinni hér neðar handsalar Hrefna  samningin við Stefán Þór Pétursson, formann kkd Þórs.