Þór/KA kynnti nýjar keppnistreyjur á stuðningsmannakvöldi

Hulda Björg Hannesdóttir, Harpa Jóhannsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir.
Hulda Björg Hannesdóttir, Harpa Jóhannsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir.

Stuðningsannakvöld Þórs/KA var haldið í Hamri fimmtudaginn 10. apríl. Þar voru þó aðallega mættir foreldrar og aðrir ættingjar leikmanna, ásamt leikmönnum og þjálfurum félagsins, að sjálfsögðu. Nýju keppnistreyjurnar eru nýlega komnar í hús og voru sýndar á kvöldinu, Jóhann Kristinn þjálfari ræddi um komandi tímabil og þrjár úr hópnum fengu löngu tímabærar viðurkenningar fyrir leikjaáfanga.

Hér á vefnum okkar hefur áður verið sagt frá leikjaáföngum Hörpu Jóhannsdóttur (100) og Huldu Bjargar Hannesdóttur (200), sem þær náðu báðar sumarið 2024. Hulda Ósk Jónsdóttir (200) hefur þó beðið lengur en hinar tvær eftir viðurkenningu fyrir leikjaáfangann, en um hennar áfanga er fjallað í annarri frétt hér á síðunni í dag. Þegar nýju keppnistreyjurnar frá Macron voru pantaðar í vetur var tækifærið gripið og útbúnar treyjur sem þær Harpa, Hulda og Hulda fengu afhentar á stuðningsmannakvöldinu.

Það vill reyndar svo skemmtilega til að Harpa og Hulda Björg, ásamt Agnesi Birtu Stefánsdóttur, voru í eins konar hönnunarteymi fyrir nýju treyjurnar. Macron býður meðal annars upp á að setja saman liti, mynstur og snið út frá fjölbreyttum möguleikum sem boðið er upp á í sérstöku forriti og þar höfðu bæði búningastjórinn og þær Agnes Birta, Harpa og Hulda Björg varið dágóðum tíma í að leika sér með alls konar útfærslur. Niðurstaðan varð eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Aðalbúningur félagsins er áfram alsvartur og eina breytingin frá fyrra ári er tegund treyjunnar og samsetning (hálsmál og fleira), ásamt öðru gráu mynstri í treyjunum. Stuttbuxur og sokkar eru áfram í svörtum lit sem fyrr. Varabúningurinn var alhvítur, en breytingin núna felst í því að hálsmálið er í dökkbláum lit, ásamt röndum niður eftir báðum hliðum treyjunnar. Þá verða stuttbuxurnar í sama bláa litnum, en sokkarnir eru áfram hvítir. Markverðir geta valið um bláan, rauðan og grænan lit.

Framleiðsla á treyjunum fer þannig fram að öll merking er framleidd í efnið sjálft þegar treyjurnar eru framleiddar, en ekki straujaðar á hér heima eftirá eins og algengt er með íþróttafatnað. Þetta gerir meðal annars að verkum að merkingarnar endast betur, en þýðir einnig að yfirleitt er 10-12 vikna afgreiðslufrestur á treyjunum og panta þarf ákveðið lágmarksmagn.

Þegar gengið var frá pöntun á treyjunum var útlit fyrir að félagið fengi þær ekki fyrr en í byrjun maí og þyrfti að spila nokkra fyrstu leikina í gömlu búningunum. Það kom því skemmtilega á óvart þegar treyjurnar voru mættar til landsins snemma í apríl og verðlaunatreyjurnar þar með.

Pöntun á keppnistreyjunum hefur verið í boði undanfarna daga og lýkur í dag, þriðjudaginn 15. apríl. Hér er hægt að skrá inn pantanir: https://forms.gle/b35kC4H48R1aGYz17