Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Kjöri á íþróttafólki Þórs 2023 verður lýst í verðlaunahófi félagsins laugardaginn 6. janúar 2024. Nú þegar er orðið ljóst hvaða íþróttafólk kemur til greina í valinu.
Öllum deildum Þórs gefst kostur á að tilnefna konu og karl úr sínum röðum, sem verðlaunað verður sem íþróttafólk deildanna, en síðan kýs aðalstjórn, samkvæmt reglugerð, konu og karl úr þeim hópi sem hljóta útnefninguna íþróttafólk Þórs 2023.
Heimasíðan hefur í dag og í gær verið að rifja upp og framreiða fróðleiksmola um tilnefningar og kjörið í gegnum tíðina.
Hér á heimasíðunni má einnig finna þessa lista ásamt reglugerð um kjör íþróttafólks Þórs.
Dagskrá verðlaunahófsins verður betur kynnt þegar nær dregur, en hér birtum við stutta kynningu á því fólki sem deildirnar hafa útnefnt sem íþróttafólk ársins úr sínum röðum.
Handknattleiksdeild: Lydía Gunnþórsdóttir
Hnefaleikadeild: Valgerður Telma Einarsdóttir
Keiludeild: Tilnefnir ekki
Knattspyrnudeild: Sandra María Jessen
Körfuknattleiksdeild: Madison Anne Sutton
Píludeild: Kolbrún Gígja Einarsdóttir
Rafíþróttadeild: Árveig Lilja Bjarnadóttir
Taekwondodeild: Tilnefnir ekki
Handknattleiksdeild: Aron Hólm Kristjánsson
Hnefaleikadeild: Elmar Freyr Aðalheiðarson
Keiludeild: Tilnefnir ekki
Knattspyrnudeild: Marc Rochester Sörensen
Körfuknattleiksdeild: Smári Jónsson
Píludeild: Óskar Jónasson
Rafíþróttadeild: Stefán Máni Unnarsson
Taekwondodeild: Tilnefnir ekki
Hér að neðan eru umsagnir um það íþróttafólk sem deildirnar tilnefndu, textar sem ýmist komu frá stjórnum eða þjálfurum hjá viðkomandi deildum. Tilnefningar og umsagnir voru skráðar af deildunum í rafrænt form og eru birtar hér í sömu röð og þær bárust.
Elmar Freyr Aðalheiðarson hefur stundað hnefaleika í átta ár. Hann hefur keppt í flokkum frá -75 kg upp í +92 kg. Hann er orðinn einn reynslumesti hnefaleikari Íslands og honum hefur verið boðið og tekið þátt í að berjast á erfiðustu mótum í Evrópu, svo sem Tammer í Finnlandi og Evrópumeistaramótinu og einnig hefur hann keppt við atvinnumann á boxkvöldi í Danmörku.
Elmar vann Íslandsmeistaratitilinn í flokki elite karla í ofurþungavigt (+92kg) þriðja árið í röð í ár. Þar sigraði hann Magnús Kolbjörn Eiríksson úr Hnefaleikafélagi Kópavogs í úrslitum.
Valgerður hefur stundað hnefaleika í fjögur ár. Hún hefur verið iðin við að taka þátt í diplómamótum Hnefaleikasambands Íslands og staðið sig mjög vel. Hún mætir mjög vel á æfingar og stundar þær af miklum metnaði. Valgerður er aðeins 15 ára gömul en ein af okkar (Íslands) allra efnilegustu boxurum.
Valgerður hefur nú náð þeim merka árangri að vinna sér inn gullmerki Hnefaleikasambands Íslands í diplómahnefaleikum. Hún hefur keppt níu viðureignir í ár og hún hefur alltaf fengið einkunn sem telur upp í næsta viðurkenningarmerki.
Marc Rochester Sorensen var valinn besti leikmaður Þórs á lokahófi knattspyrnudeildar í haust. Marc stimplaði sig hratt inn sem lykilmaður í liði Þórs eftir að hafa gengið í raðir félagsins síðasta vetur. Eftir að hafa lent í smávægilegum meiðslum snemma sumars kom Marc af fítonskrafti inn í liðið eftir meiðslin og var einn besti leikmaður Lengjudeildarinnar á tímabilinu.
Marc skoraði fimm mörk fyrir Þór á árinu, 17 leikir/2 mörk í Lengjudeildinni, 3 leiki /2 mörk í Mjólkurbikarkeppninni og 4 leikir/1 mark í Lengjubikarnum auk þess að leggja upp fimm mörk á tímabilinu.
Marc var í leiðtogahlutverki í liði Þórs á tímabilinu og tók það föstum tökum.
Sandra María tók við fyrirliðahlutverkinu fyrir tímabilið 2023 og var lykilmanneskja í öflugu liði Þórs/KA sem endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar í haust, auk þess að hafa unnið Kjarnafæðismótið á æfingatímabilinu og komist í úrslitaleik Lengjubikarsins. Liðið vann öll lið sem það mætti á tímabilinu að minnsta kosti einu sinni, náði frábærum árangri í útileikjum þrátt fyrir langar bílferðir og endaði í efri hluta Bestu deildarinnar.
Hún vann sér fast sæti í landsliðinu aftur eftir að hafa verið í barnsburðarleyfi og hefur verið í byrjunarliði Íslands í næstum öllum leikjum liðsins í Þjóðadeildinni í ár þrátt fyrir að hafa orðið fyrir meiðslum um mitt sumar og misst af æfingaleikjum liðsins í júlí. Sandra María var markahæst leikmanna Þórs/KA í Bestu deildinni annað árið í röð. Hún skoraði átta mörk í 19 leikjum í Bestu deildinni og auk þess 12 mörk í sjö leikjum í A-deild Lengjubikarsins og tíu mörk í fjórum leikjum í Kjarnafæðismótinu, æfingamóti í janúar.
Sandra María lék á árinu sinn 200. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA (KSÍ leikir og Evrópukeppni) og nokkuð er síðan hún jafnaði og bætti félagsmet hjá Þór/KA í skoruðum mörkum í efstu deild og bætir það met með hverju marki sem hún skorar. Að meðtöldum leikjum í efstu deildum Tékklands og Þýskalands náði Sandra María þeim áfanga í haust að spila sinn 200. leik í efstu deild, 153 á Íslandi og 48 erlendis.
Sandra María er mikilvægur liðsmaður í ungu en öflugu liði Þórs/KA, fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í ástundun, hugarfari, vinnuframlagi og baráttu.
Rafíþróttadeildin skilaði einungis inn nöfnum, en engri umsögn um þau sem tilnefnd eru né myndum af viðkomandi.
Maddie Sutton er fyrst og fremst einstakur félagsmaður og Þórsari. Hún gekk í raðir Þórs fyrir tímabilið 2022-23 og kom með þá orku inn í ungt og efnilegt lið Þórs sem það þurfti á að halda. Með komu hennar gjörbreyttist stemningin í liðinu og innan félagsins og átti hún stóran þátt í að koma Þór upp í efstu deild.
Hún skilaði lygilegum tölum með Þórsliðinu í 1. deildinni, en þó efuðust sérfræðingar um réttmæti þess að halda henni því óvenjulegt er að lið haldi erlendum leikmönnum þegar farið er upp um deild.. Þessar efasemdarraddir gerðu þó ekki ráð fyrir þeirri gríðarlegu vinnusemi sem Maddie býr yfir. Líklega æfir enginn innan félagsins jafn mikið og af sama krafti og hún.
Metnaður hennar til að verða betri með hverjum deginum hefur smitast vel inn í hópinn og hefur liðið nú þegar náð árangri á fyrsta tímabili í efstu deild sem farið hefur fram úr björtustu vonum. Hvað einstaklingsframlag og tölfræði varðar er hún í algjörum sérflokki í Subway-deildinni og er ein tveggja sem tvisvar hefur verið valin í lið umferðarinnar.
Maddie er ekki aðeins frábær inni á vellinum heldur er hún einnig gríðarlega mikilvæg fyrir félagsstarf körfunnar, þá sérstaklega yngri flokka. Hún er ein besta fyrirmynd sem við Þórsarar eigum í okkar röðum. Hún hefur verið gríðarlega mikilvægt púsl í yngri flokkunum þar sem unnið er að því að fjölga iðkendum í stúlknaflokkum. Það hefur tekist og fjöldi iðkenda kvennamegin hefur tvöfaldast.
Vonandi verða Þórsarar svo heppnir að geta kallað Maddie „okkar konu“ um ókomin ár. Hún hefur sýnt okkur að liðið getur afrekað nánast hvað sem er með hana í fararbroddi sem leikmaður, leiðtogi og félagsmaður okkar Þórsara.
Smári hefur spilað allan sinn feril með Þór en hann var partur af einu farsælasta yngri flokka liði sem Þór hefur átt í körfubolta.
Smári tók við kefli leikstjórnanda árið 2022 þá aðeins 21 árs að aldri. Síðan þá hefur hann vaxið mikið sem leikmaður og er í dag einn af burðarásum liðsins. Smári er afar snöggur leikmaður og fáir geta haldið í við hann í hraðaupphlaupi, hann nýtir sér einnig hraðann í vörninni en Smári er einstaklega góður að pressa leikstjórnandann og stinga sér inn í sendingar. Smári sinnir einnig því mikilvæga hlutverki að stýra sóknarleik liðsins og hefur sýnt miklar framfarir í að finna veikleika varnar andstæðingsins og hvernig best sé að nýta sér hann.
Besti leikur Smára á árinu var án efa í febrúar gegn ÍA en þar skoraði hann 31 stig, gaf níu stoðsendingar og tók fjögur fráköst. Að meðaltali í leik skoraði hann 14 stig, gaf sex stoðsetningar og tók fjögur fráköst. Smári missti aðeins af einum leik af 23 á árinu og spilaði yfir 25 mínútur í öllum þeirra.
Smári er einnig til fyrirmyndar utan vallar en hann hefur verið gjafmildur á tímann sinn í dómgæslu og þjálfun yngri flokka.
Aron hefur verið einn af máttarstólpum liðsins síðustu 3-4 ár. Mikilvægur leikmaður. Uppalinn Þórsari sem er alltaf tilbúinn að leggja allt á sig fyrir liðið og liðsfélagana.
Aron var valinn besti leikmaður liðsins á síðasta lokahófi.
Óskar hefur sýnt það síðastliðin tvö ár að hann hefur metnað og vilja til að komast í hóp þeirra bestu í pílukasti á Íslandi.
Óskar Jónasson hefur átt virkilega gott ár í pílukasti. Óskar stóð uppi sem sigurvegari í tveimur meistaramótum innan píludeildar Þórs, 301 einmenning, en hann vann það einnig árið 2022 og svo vann hann krikket einmenning á þessu ári.
Óskar var valinn á úrtaksæfingar hjá landsliði Íslands í pílukasti á liðnu ári og er farinn að banka á dyrnar að komast í landsliðið. Óskar fór og reyndi fyrir sér á erlendri grundu fyrr á árinu. Hann tók þátt í móti á vegum PDC Nordic & Baltic og gerði sér lítið fyrir og komst í 32ja manna úrslit en tapaði þar 6-4.
Óskar fékk þátttökurétt í úrvalsdeildinni sem var sýnd í beinni á Stöð 2 sport nýverið en keppt var í fjögurra manna riðlum og efsti keppandi í hverjum riðli komst áfram í 8 manna úrslit. Óskar komst ekki upp úr riðli en góð reynsla í reynslubankann á stóra sviðinu.
Óskar hefur tvívegis staðið uppi sem sigurvegari í ÍPS deildinni á árinu en spilað er 1x í mánuði hér á Akureyri og í Reykjavík.
Kolbrún Gígja hefur tekið miklum framförum í pílukasti síðastliðið ár. Hún hefur verið dugleg að mæta og kasta ásamt því að sækja mót hér á Akureyri og sunnan heiða og hefur árangurinn ekki látið á sér standa.
Kolla sigraði meistaramót Píludeildar Þórs í 301 einmenning og endaði í 2. sæti í meistaramóti 501 einmenning.
Nýverið lauk deildarkeppni ITS Macros og voru níu konur skráðar til leiks. Kolla gerði sér lítið fyrir og vann alla leiki sína í riðlinum og vann svo úrslitakeppnina með glæsibrag. Kolla hefur einnig gert sér ferðir suður yfir heiðar og tekið þátt í Íslandsmótum. Kolla og Ólöf Heiða tóku þátt í íslandsmótinu í 501 tvímenningi og fóru alla leið í undanúrslit en töpuðu þar fyrir liðinu sem urðu svo íslandsmeistarar.
Kolla er einnig frábær fyrirmynd fyrir pílukasti á Akureyri og hefur hún í samvinnu við aðrar konur í píludeild Þórs haldið konukvöld og skemmtimót fyrir konur á árinu. Til að mynda var haldið styrktarmót fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar í tilefni af bleikum október og mættu 50 konur í aðstöðu píludeildar Þórs.
Pílukast kvenna er á góðri leið og má þar þakka Kollu og öðrum konum í píludeild Þórs vel fyrir. Það er eitthvað sem segir okkur það að þetta sé bara byrjunin á velgengni Kollu í pílukasti.