Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Uppfærð frétt: Rafíþróttalið Þórs í Ljósleiðaradeildinni, Íslandsmótinu í Counter Strike, varð í gær Íslandsmeistari og er það í þriðja skipti sem karlalið félagsins í hópíþrótt í meistaraflokki vinnur Íslandsmeistaratitil í tæplega 109 ára sögu félagsins. Áður höfðu Þórsarar tvívegis orðið Íslandsmeistarar karla í innanhússfótbolta, 1993 og 2001.
Bjarni Sigurðsson, formaður rafíþróttadeildar Þórs, var í sjöunda himni þegar heimasíðan heyrði í honum í morgun. „Ég er gríðarlega stolltur af stákunum að sigla þessu heim og óska þeim innilega til hamingju með þennan árangur, þeir eru ekki bara að skrifa sögu rafíþróttadeildarinnar heldur eru að setja sig á spjöld sögunnar hjá Þór," segir Bjarni.
Alfreð Leó Svansson var í viðtali í beinni frá Akureyri eftir að Þórsarar tryggðu sér sigurinn. Hann hafði varla frið til að ræða við þáttarstjórnendur því síminn þagnaði ekki á meðan á spjallinu stóð. Margir sem vildu óska honum og Þórsurum til hamingju. „Hvað á ég að gera núna?“ spurði hann þáttarstjórnendur og þeir svöruðu: „Þú ert búinn að vinna deildina.“
Alfreð Leó Svansson, maður leiksins að mati lýsenda í gær. Skjáskot úr útsendingu á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands.
Eðli málsins samkvæmt er rafíþróttalið ekki, eða þarf ekki að vera, allt statt á sama staðnum og því er ekki til nein eiginleg liðsmynd af Þórsurum. Einn liðsmaðurinn er til að mynda í Danmörku og annar í Reykjavík, en fjórir á Akureyri. Fimm spila leikinn hverju sinni, en yfirleitt eru allir sex í talsambandi á meðan leikurinn fer fram. Alfreð Leó Svansson – allee** – var valinn maður leiksins í gær af þeim sem lýstu leiknum, en þeir töluðu jafnframt um að Pétur Örn Helgason – peter – væri sá besti á landinu í þessum leik. Hafþór Örn Pétursson - detinate - gekk aftur í raðir Þórs eftir að hafa verið liðsmaður Dusty í eitt tímabil og spilaði raunar ekki nema síðustu leikina í þessu móti. Hann er sagður sá besti í deildinni að ákvaða hvernig best er að spila hverju sinni.
Lokastaða Ljósleiðaradeildarinnar 2023-24. Þórsarar á toppnum með fjögurra stiga forystu á aðalkeppinautana, Dusty. Skjáskot úr útsendingu gærdagsins.
Sérfræðingar eru sammála um að sigur Þórsara í deildinni hafi verið fyllilega verðskuldaður og raunar óþarflega tæpur miðað við styrk og getu liðsins og leikmanna þess. Tony spilar til að mynda frá Danmörku á veikara pingi en hinir, eða hægara neti, Hafþór Örn kom seint inn í liðið og stundum stangast leikir á við vinnu ef menn eru á kvöldvöktum.
Íslandsmeistararnir:
Þórsarar höfðu tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar fyrir lokaumferðina sem spiluð var í gær á svokölluðum Ofurlaugardegi þar sem hver leikurinn á fætur öðrum er í beinni á Stöð 2 esport og Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands. Þar má einnig finna upptöku af öllum leikjunum sem fram fóru í gær. Síðasta viðureignin var leikur Þórs gegn liði sem kallar sig Nocco Dusty og var hreinn úrslitaleikur deildarinnar.
Hver leikur er 24 lotur, tvær mínútur hver lota, en leik lýkur þegar annað liðið hefur unnið 13 lotur. Leikur Þórs og Dusty var spilaður í Anubis-borðinu, eða mappinu eins og það er jafnan kallað í leiknum. Í leiknum ver val um sjö mismunandi umhverfi (maps). Fyrir leik fá liðin að blokka á víxl þau borð sem þau vilja ekki spila í þar til tvö standa eftir og þá á heimaliðið val um í hvoru umhverfinu er spilað. Dusty var heimaliðið í gær og valdi Anubis.
Þórsarar unnu fyrstu tvær loturnar, Dusty jafnaði í 2-2. Þórsarar komust í 3-2, en Dusty vann næstu þrjár lotur og komust í 5-3 áður en Þórsarar náðu að svara og unnu næstu sex lotur. Þórsarar voru því með 7-5 forystu eftir fyrri hálfleikinn og komnir með 9-5 forystu í upphafi seinni hálfleiks áður en Dusty fór aftur á skrið og vann næstu þjár lotur. Forysta Þórs þá komin miður í eina lotu, 9-8. Þórsarar unnu 18. lotuna og komust í 10-8 og svo 11-8, aftur komnir með báðar hendur á stýrið og aðra hönd á bikarinn, eins og lýsendur orðuðu það einhvern tíma í leiknum. Þeir hertu tökin með sigri í 20. lotunni, staðan orðin 12-8 og eina von Dusty að jafna og komast í framlengingu. Þórsarar höfðu engan hug á að hleypa Dusty aftur inn í leikinn, unnu einfaldlega næstu lotu og leikinn þar með 13-8.
Næsta verkefni Þórsara er Stórmeistaramótið sem spilað verður á Arena í Kópavogi og verður gaman að fylgjast með hvernig nýkrýndum Íslandsmeisturum gengur þar. Nánar verður fjallað um Stórmeistaramótið þegar nær dregur og svo að sjálfsögðu að því loknu. Undanúrslitin í Stórmeistaramótinu fara fram 22. mars og úrslitin 23. mars.