Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Haraldur Ingólfsson íþróttaeldhugi ársins!
Haraldur Ingólfsson, sem unnið hefur gríðarlegt sjálfboðastarf undanfarin ár fyrir íþróttafélagið Þór og kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu, var í kvöld útnefndur íþróttaeldhugi ársins af Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ), þegar verðlaunin voru afhent í fyrsta skipti.
Íþróttafélagið Þór óskar Haraldi innilega til hamingju með nafnbótina. Hann hefur unnið ómetanlegt starf í mörg ár og er sannarlega vel að verðlaununum kominn.
ÍSÍ ákvað að stofna til þessara verðlauna í ljósi þess hve gríðarlega miklu máli sjálfboðaliðar skipta í íþróttahreyfingunni og til þess að vekja athygli á mikilvægu starfi þeirra.
Haraldur tók við verðlaununum í hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í Reykjavík, þar sem ýmsar viðurkenningar eru veittar. Hápunktur kvöldsins var þegar kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins var lýst en Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handbolta, hlaut nafnbótina annað árið í röð.
Hófið var í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins að vanda.
Alls voru 175 manns tilnefndir af íþróttahreyfingunni og almenningi til verðlaunanna íþróttaeldhugi ársins. Skipuð var valnefnd sem valdi úr þessum stóra hópi þrjá sjálfboðaliða sem komu til greina en það voru auk Haraldar, Friðrik Þór Óskarsson sem hefur starfað fyrir ÍR og Frjálsíþróttasambandið og Þóra Guðrún Gunnarsdóttir, sem starfað hefur fyrir Björninn, SR og Skautasambandið.
Valnefnd ÍSÍ var skipuð valinkunnum íþróttakempum, þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Bjarna Friðrikssyni og Degi Sigurðssyni.
Ómar Ingi Magnússon íþróttamaður ársins 2022 og Haraldur Ingólfsson íþróttaeldhugi ársins 2022